Fyrir nokkrum vikum var tví­sýnt hvort Tinna Sif Teits­dóttir myndi yfir höfuð keppa á Evrópu­meistara­mótinu í hóp­fim­leikum sem fór fram í dag. Tinna sleit lið­band í ökklanum og gat því ekkert æft eða stokkið nema rétt fyrir mót en í gær stóð hún upp á verðlaunapallinum með silfurpening um hálsinn.

„Ég hélt að ég væri ekkert að fara með. Það var sagt við mig að það væru mjög litlar líkur á því. Svo tveim vikum eftir að ég sleit lið­bandið þá var þetta farið að lagast frekar fljótt þannig við sáum tæki­færi á því að ég gæti keppt á EM, kannski bara í dansinum,“ segir Tinna í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Svo hélt ökklinn á­fram að verða betri og betri og gerði næstum því öll stökkin sem ég get gert í dag,“ segir Tinna.

Ás­dís Guð­munds­dóttir sjúkra­þjálfari kvenna­lands­liðsins segist ekki hafa séð aðra eins endur­komu úr lið­bands­slitum en lið­bandið gréri ó­venju hratt. Ís­lenska kvenna­lands­liðið hefur verið að glíma við meiðsli og kyn­slóða­skipti en liðið vann engu að síður silfur­verð­laun á EM.

Danska kvenna­lands­liðið, sem endaði í þriðja, fylgdi fast á eftir Ís­landi allt mótið og var ljóst að liðið þurfti á öllum sínum stigum að halda og skiptu því stökkin hennar Tinnu miklu máli.

Hægt er að sjá Tinnu stökkva á dýnunni á EM hér fyrir neðan.

Tinna Sif og Ásdís sjúkraþjálfari í faðmlögum eftir mótið.
Ljósmynd/Fjóla Þrastardóttir

Tóku liðsfund fyrir mótið vegna áfalla

Spurð um hve­nær hún gat byrjað að stökkva og æfa aftur segir Tinna það bara hafa verið í síðustu viku.

„Ég byrjaði að stökkva viku fyrir mót,“ segir Tinna sem gerði sér lítið fyrir og lét strax vaða í öll keppnis­stökkin sín. „En það gekk mjög vel þannig ég fór frekar örugg inn á Evrópu­mótið.“

Spurð um hvort hún sé sátt með silfrið segir hún svo vera í ljósi þess sem hefur gengið á.

„Mér liður bara æðis­lega, þar sem við náttúru­lega misstum nokkrar mjög sterkar úr liðinu og það var mjög mikið á­fall. Misstum Kol­brúnu [Þöll Þorradóttir] rétt fyrir brott­för og svo meiðir Hildur [Clausen Heiðmundsdóttir] sig í undan­úr­slitunum en við tókum fund fyrir mótið í dag og komum sterkari og betri úr því,“ segir Tinna.

Ljósmynd/Fjóla Þrastardóttir

„Við auð­vitað hörkuðum þetta af okkur. Við þurfum að gera það. Mark­miðið var alltaf að ná fyrsta sætinu og halda titlinum en við erum bara mjög sáttar að hafa komist í gegnum þetta,“ bætir hún við.

Spurð um hvort að stefnan sé ekki að endur­heimta titillinn eftir tvö ár, segir Tinna að sjálf­sögðu.

„Við ætlum að taka titilinn eftir tvö ár,“ segir Tinna að lokum.