Fyrrum landsliðsþjálfarinn, Heimir, var án starfs í sumar þegar Vanda hóf viðræður við hann með það fyrir augum að hann tæki við karlalandsliðinu. Arnar Þór var þá og er enn í starfinu. Ekkert varð úr því að Heimir tæki við og samdi hann á dögunum við landslið Jamaíku. Í samtali við Fréttablaðið í gær baðst Arnar undan því að ræða málið.

Ekki vantraust á Arnar

Arnar Þór hefur út á við fengið mikinn stuðning frá Vöndu, en nú má leiða líkur að því að að hann upplifi þessi tíðindi sem ákveðið vantraust. Arnar var að klára verkefni sem er það best heppnaða í hans stjórnunartíð, liðið vann góðan sigur á Venesúela og sýndi mikinn karakter í 1-1 jafnteflinu gegn Albaníu á þriðjudag.

„Arnar Þór hefur sjálfsagt orðið var við þá umræðu sem hefur verið uppi um hans störf og árangur landsliðsins, á því leikur enginn vafi. Ef hann horfir því blákalt á hlutina þá ætti það ekki að koma honum í opna skjöldu að Vanda hafi hlerað mann eins og Heimi Hallgrímsson.

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Umræðan um liðið var orðin það neikvæð á tímabili að Vanda hefur álitið það sína skyldu að kanna hvort okkar farsælasti landsliðsþjálfari hafi viljað stíga aftur inn í KSÍ. Mér finnst því ekki óeðlilegt að hún fari yfir sína valkosti þegar illa gengur,“ segir Jóhann Már Helgason, sparkspekingur og þáttastjórnandi á Viaplay.

Eðlilegt að kanna Heimi

Jóhann Már telur það mjög eðlilegt að KSÍ hafi kannað stöðu Heimis, þó það sé vissulega óheppilegt að viðræðurnar leki út mörgum mánuðum síðar.

„Að sama skapi má einnig lesa úr þessu að Vanda hafi ekki verið í virkri þjálfaraleit til þess að koma Arnari frá. Það er eitt að kanna hug Heimis Hallgrímssonar sem var án starfs á þeim tíma, en annað að vera hreinlega að leita að öðrum þjálfara. Vanda treystir því Arnari ennþá fyrir verkefninu.“

Vanda hafði samband við Heimi sem stýrði íslenska landsliðinu við góðan orðstír á sínum tíma
Fréttablaðið / Eyþór

Vanda hefur verið dugleg að styðja Arnar Þór út á við. Verða þær yfirlýsingar marklausar nú þegar upp á yfirborðið hefur komið að hún hafi íhugað að ráða Heimi í starfið?

„Stuðningsyfirlýsingar formanna til knattspyrnustjóra hafa hingað til sem áður fyrr verið nokkurs konar dauðakoss fyrir þjálfarann. Það má ekki lesa of mikið í slíkar yfirlýsingar. Slíkt er greinilega líka tilfellið hjá Vöndu formanni. Hún sýndi það með þessum viðræðum að hún er tilbúin að skipta um þjálfara ef betri kostur er á lausu.

Það sem Arnar Þór þarf að gera er að sannfæra Vöndu um að hann sé þessi besti kostur í starfið og leikirnir í síðustu viku gegn Venesúela og Albaníu voru góð byrjun hjá honum,“ segir Jóhann.

Nota þriðja aðila

Í heimi íþrótta er það eðlilegasti hlutur í heimi að knattspyrnufélög og sambönd kanni landslagið. Það er hins vegar oft farin sú leið að láta þriðja aðila sjá um slíka hluti.

Þannig er hægt að koma í veg fyrir að upp komist að félagið eða sambandið hafi fundað með öðrum þjálfara, á sama tíma og annar er í starfi. Þannig atvikuðust hlutirnir hjá KSÍ, fundurinn með Heimi átti sér stað en áfram situr Arnar í þjálfarasætinu.

„Það hefði vissulega verið klókara, því það er aldrei jákvætt fyrir félög eða knattspyrnusambönd að þjálfarar hafi verið að hafna þeim, það er einfaldlega slæmt fyrir almenningsálitið. Það er einnig óþægilegt fyrir þann þjálfara sem fyrir er, líkt og raunin er í þessu tilfelli.“