Mick Schumacher verður ekki öku­maður For­múlu 1 liðs Haas á næsta tíma­bili og mun hann því keppa í sinni síðustu keppni fyrir liðið um komandi keppnis­helgi í Abu Dhabi. Þetta stað­festir Haas í yfir­lýsingu og greinir frá því um leið að inn í Schumacher­s stað komi Þjóð­verjinn reyndi Nico Hul­ken­berg. Ekki eru margir kostir í stöðunni fyrir Schumacher í For­múlu 1 en þó eru kostir til staðar.

Ó­stöðug­leiki sem og dýr­keypt mis­tök Schumacher­s sem hefur orðið valdur að kostnaðar­sömu tjóni á Haas-bílnum í þó­nokkur skipti eru talin hafa haft mest um það að segja að for­ráða­menn Haas á­kváðu að gera þessar breytingar á liði sínu.

Haas batt miklar vonir við Schumacher fyrir yfir­standandi tíma­bil sem er hans annað í For­múlu 1 en honum hefur að­eins tekist að hala inn 12 stigum hingað til. Þá hefur hann lotið í lægra haldi gegn liðs­fé­laga sínum Kevin Magnus­sen.

En hvað tekur við hjá Þjóð­verjanum unga sem er sonur For­múlu 1 goð­sagnarinnar Michael Schumacher? Í yfir­lýsingu frá Mick segist hann brenna fyrir For­múlu 1 en mögu­leikar hans á að fá sæti sem aðal­öku­maður í móta­röðinni á næsta ári eru litlir sem engir.

Að­eins á eftir að ráða í eitt slíkt öku­manns­sæti og er það hjá Willi­ams en þó svo ekki sé búið að ganga frá samningum við öku­mann er For­múlu 2 öku­maðurinn Logan Sar­geant fyrsti kostur liðsins.

Þó eru aðrir mögu­leikar í stöðunni fyrir Mick. Lawrence Bar­retto, blaða­maður F1.com segist hafa heimildir fyrir því að nú þegar hafi átt sér stað við­ræður milli Mick Schumacer og Mercedes um að hann gerist vara­öku­maður liðsins.

Tengsl Schumacher fjöl­skyldunnar við Mercedes eru mikil og góð eftir tíma Michael Schumacher hjá liðinu á sínum tíma. Hjá Mercedes gæti Mick komist að hjá marg­reyndu meistara­liði og sogað í sig kunn­áttu sjö­falda heims­meistarans Sir Lewis Hamilton í leiðinni.

Þá gæti þessi leið mögu­lega tryggt honum sæti á rás­röðinni árið 2024.

Reynslumikill ökumaður mætir aftur

Nico Hul­ken­berg er maðurinn sem leysir Mick af hólmi og sá er vel þekktur meðal For­múlu 1 á­huga­manna. Hul­ken­berg ók síðast heilt tíma­bil í For­múlu 1 árið 2019 með Renault en hann hefur þó fengið smjör­þefinn af nýrri kyn­slóð For­múlu 1 bíla sem ekið er um á núna því Hul­ken­berg ók í tveimur keppnum fyrir Aston Martin í upp­hafi tíma­bils í fjar­veru Sebastian Vet­tel.

Hul­ken­berg, 35 ára gamall, á að baki 181 keppni í For­múlu 1 fyrir nokkur mis­munandi lið en hann hóf For­múlu 1 feril sinn árið 2010.

„Reynsla hans og kunn­átta er öllum ljós. Með næstum því 200 keppnir í For­múlu 1 á bakinu og orð­spor fyrir að vera mjög góður í tíma­tökum sem og á­reiðan­legur öku­maður," segir Guent­her Stein­er, liðs­stjóri Haas meðal annars um Hul­ken­berg.