Óvíst er hvort að Karatsev mæti Alexander Zverev eða ríkjandi meistaranum Novak Djokovic í undanúrslitunum en einvígi þeirra stendur yfir þessa stundina.

Hinn 27 ára gamli Karatsev er fyrsti maðurinn sem kemst í undanúrslit á einu af fjórum risamótunum í fyrstu tilraun í núverandi mótafyrirkomulagi (e. Open era) sem tekið var upp árið 1968.

Áður fyrr hafði Karatsev níu sinnum reynt að komast inn á eitt af risamótunum fjórum í gegnum undankeppni án árangurs en hann er nú kominn í undanúrslitin í Ástralíu.

Karatsev hafði betur 3-1 gegn Grigor Dimitrov í átta manna úrslitunum eftir að hafa lent 0-1 undir gegn Dimitrov.

Búlgarinn Dimitrov var um tíma í þriðja sæti á heimslistanum og er í átjánda sæti listans þessa dagana.

Rússinn er þegar búinn að hafa betur gegn Diego Schwartzman sem er í níunda sæti styrkleikalista alþjóða tennissambandsins en í undanúrslitunum bíður annað hvort Djokovic eða Zverev.

Djokovic er af mörgum talinn einn af bestu tennisspilurum allra tíma en Zverev er í sjöunda sæti heimslistans.

Með árangri sínum í Ástralíu er Karatsev búinn að tryggja sér að minnsta kosti um 660 þúsund dollara sem er rúmlega tvöfalt meira en hann var búinn að vinna sér inn á ferlinum til þessa (618 þúsund dollarar).