Óskar Örn Hauksson, leikja- og markahæsti leikmaður karlaliðs KR í fótbolta, hefur yfirgefið herbúðir Vesturbæjarliðsins og gengið til liðs við Stjörnuna.

Óskar Örn, sem er 37 ára gamall, gerir tveggja ára samning við Stjörnuna, en hann hefur leikið með KR-liðinu frá því árið 2007.

KR-ingar buðu Óskari Erni eins árs framlengingu á samningi sínum við félagið sem rann út í haust.

Stjörnumenn náðu hins vegar að tryggja sér þjónustu Óskars Arnar næstu tvö árin með samningstilboði sínu. Óskar Örn er fyrsti leikmaðurinn sem Ágúst Þór Gylfason, sem tók við stjórnartaumunum hjá Stjörnunni eftir að síðustu leiktíð lauk, bætir við leikmannahóp sinn.

„Það er frábært fyrir mig að stíga aðeins útfyrir þægindarammann og taka þátt í mjög spennandi hlutum sem eru framundan í Garðabænum eftir langan og skemmtilegan tíma í Vesturbænum.

Stjörnuliðið er skemmtileg blanda ungra og reyndra leikmanna og ég hlakka til að miðla af reynslunni til þessara ótrúlega spennandi ungu leikmanna ásamt því að gera mitt til að liðið ná að keppa um þá titla sem eru í boði,“ segir Óskar Örn um vistaskiptin.