Óskar Örn Hauksson, fyrirliði karlaliðs KR í knattspyrnu, varð rétt í þessu leikjahæsti leikmaður í sögu efstu deildar á Íslandi.

Óskar Örn er þessa stundina að leika sinn 322. deildarleik og tekur þar af leiðandi fram úr markverðinum Birki Kristinssyni. Met Birkis hafði staðið frá árinu 2006. Gunnar Oddsson er svo í öðru sæti á þeim lista.

Alls hefur Óskar Örn leikið 450 í leikjum á vegum KSÍ og skorað í þeim leikjum 109 mörk. Þá leiki hefur hann spilað fyrir uppeldisfélag sitt, Njarðvík, Grindavík og KR.

Fyrsti leikur Óskars Arnar í efstu deild var með Grindavík árið 2004 en þessi frábæri kantmaður gekk til liðs við KR árið 2007.

Hann er markahæsti leikmaður í sögunni hjá KR í efstu deild með 66 mörk en hann skákaði Ellerti B. Schram á þeim lista síðasta sumar.

Í fyrra hirti Óskar Örn sömuleiðis metið yfir flesta leiki fyrir KR í efstu deild af Þórmóði Egilssyni.

Á tíma sínum hjá KR hefur Óskar Örn þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistari, 2011, 2013 og svo síðasta haust. Þá hefur hann einnig orðið bikarmeistari fjórum sinnum með KR-liðinu.

Leikjahæstu leikmenn í sögu efstu deildar á Íslandi:

  1. Óskar Örn Hauksson - 322 leikir
  2. Birkir Kristinsson - 321 leikur
  3. Gunnleifur Gunnleifsson - 304 leikir
  4. Gunnar Oddsson - 294 leikir
  5. Atli Guðnason - 285 leikir
  6. Kristján Finnbogi Finnbogason - 268 leikir
  7. Sigurður Björgvinsson - 267 leikir
  8. Atli Viðar Björnsson - 264 leikir
  9. Baldur Sigurðsson - 261 leikur
  10. Guðmundur Steinarsson - 255 leikir