Óskar Örn Hauksson, leikja- og markahæsti leikmaður í sögu karlaliðs KR í fótbolta, liggur undir feldi þessa dagana. Fotbolti.net greindi frá því í gær að Óskar Örn væri með samningstilboð frá Stjörnunni í höndunum.

Þessi 37 ára gamli framherji varð samningslaus í haust en Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, segir að vilji Vesturbæjarfélagsins sé að hafa Óskar Örn áfram í sínum herbúðum.

„Óskar er með samningstilboð á borðinu frá okkur. Hann liggur undir feldi. Auðvitað viljum við KR-ingar halda honum eins og Rúnar Kristinsson hefur sagt í viðtölum.

Hvað gerist verður svo að koma í ljós," segir Páll um stöðu mála í samningaviðræðum KR við Óskar Örn, sem leikið hefur í Vesturbænum síðan árið 2007.

Á þeim tíma hefur Óskar Örn orðið Íslandsmeistari þrisvar sinnum og tvisvar sinnum bikarmeistari.