Eden Hazard, fyrir­liði belgíska lands­liðsins í knatt­spyrnu segir að það hefði farið betur hjá þýska lands­liðinu að af­hafast ekki neitt í gær fyrir leik liðsins gegn Japan. Þjóð­verjar mót­mæltu á tákn­rænan hátt hótunum FIFA og Katar um að bera ekki regn­boga­lituð fyrir­liða­bönd til stuðnings réttinda­bar­áttu hin­segin fólks.

Hin­segin­leiki er bannaður sam­kvæmt lögum í Katar og FIFA hafði komið þeim skila­boðum á­fram til þátt­töku­þjóða HM í Katar að sektum og spjöldum yrði beitt gegn þeim liðum sem myndu leyfa fyrir­liðum sínum að bera um­rædd fyrir­liða­bönd.

Í stað þess að Manuel Neu­er, fyrir­liði þýska lands­liðsins myndi bera um­rætt fyrir­liða­band, klæddust leik­menn liðsins upp­hitunar­treyjum fyrir leik með regn­boga­lituðum röndum á. Auk þess héldu leik­menn fyrir munn sinn á liðs­mynd fyrir leik til þess að vekja at­hygli á þöggun FIFA og Katar.

Eden Hazard, fyrir­liði Belgíu, segir að það hefði farið betur hefðu leik­menn Þýska­lands ekki gert neitt þessu líkt.

,,Það hefði farið þeim betur að sleppa þessu og ein­beita sér að því að vinna sinn leik," sagði Hazard í við­tali við RMC Sport en Þjóð­verjar töpuðu leik sínum gegn Japan í gær.

,,Við erum hér til þess að spila knatt­spyrnu, ég er ekki hér til þess að senda pólitísk skila­boð, það er annað fólk sem sér um það. Við viljum bara ein­beita okkur að knatt­spyrnunni."

Hazard í leik með Belgum gegn Kanada í gær
Fréttablaðið/GettyImages

Að­spurður að því hvað honum fyndist um á­kvörðunina að láta fyrir­liða ekki bera regn­boga­lituðu böndin hafði Hazard þetta að segja:

,,Mér líður ekki vel að tala um þetta vegna þess að ég er hingað kominn til að spila fót­bolta. Ég vildi ekki byrja leikinn á því að fá á mig gult spjald, það hefði verið pirrandi það sem eftir lifir móts."