Guðni Valur Guðnason, eini fulltrúi Íslands í frjálsum íþróttum á Ólympíuleikunum síðasta sumar, vekur athygli á bágborinni aðstöðu frjálsíþróttafólks í Reykjavík í færslu á Facebook í dag eftir að æfingaaðstöðu þeirra í Laugardalshöll var lokað vegna alþjóðlegs rafíþróttamóts.

Guðni deildi færslu Óskars Hlynssonar, yfirþjálfara Fjölnis, þar sem Óskar talar um að frjálsíþróttafólk fái aðeins að æfa í höllinni í níu daga yfir þriggja vikna tímabil.

Þá sé búið að loka lyftingasalnum sem var búið að lofa að yrði opinn áfram.

Guðni bætir við að það sé fáránlegt að það sé verið að loka æfingaraðstöðunni sem bitni helst á afreksíþróttafólki. Á sama tíma fer alþjóðlegt mót í tölvuleiknum Valorant fram í Laugardalshöll.

Í færslu Óskars segir hann að aðstæður eins og þessar leiði til þess að afreksíþróttafólk sé að yfirgefa Reykjavíkurfélögin.