„Mér fannst þessi leikur mjög góður, mér fannst við vera mjög góðar í þessum leik og bara óheppnar að vinna hann ekki,“ segir Máni, spurður út í 1-1 jafntefli Íslands og Ítalíu í fyrradag.

Einhverjir hafa gagnrýnt liðið fyrir að leggjast snemma til baka eftir að hafa komist yfir gegn Ítölum.

„Það gerist bara í fótbolta, þó það sé ekki lagt upp með það. Leikmenn byrja ósjálfrátt að bakka, það er ekki eitthvað sem þjálfarinn leggur upp með. Á móti Belgum gerist þetta sama, við förum að detta aftar á völlinn til að verja einhverja forystu. En það er alveg eðlilegt á móti liðum eins og Ítalíu og Frakklandi að við séum meira að verjast en að sækja.“

Ísland er með tvö stig í D-riðli Evrópumótsins eftir tvær umferðir. Liðið á enn möguleika á að komast áfram. Miklar væntingar voru gerðar til liðsins fyrir mót og segir Máni að pressan hafi að vissu leyti verið ósanngjörn.

„En því ber bara að fagna. Það er bara geggjað að það sé verið að setja pressu á íslenskt kvennafótboltalið og það segir okkur bara hversu langt við erum komin.“

Öll umræða er góð umræða

Máni fagnar því hversu mikil umræða er um liðið. „Það eru komnir jafnmargir sérfræðingar um kvennafótbolta og sóttvarnalæknar í miðju Covid. Það er náttúrlega geggjað að það séu svona margir áhugamenn um kvennafótbolta. Það voru ekki svona miklar og sterkar skoðanir á þessu síðast þegar við vorum á Evrópumótinu.“

„Það er öll umræða góð umræða. Þegar Freyr Alexandersson, góður vinur minn, var með liðið og ég var eitthvað að drulla yfir það þá fagnaði hann því mjög mikið, fannst alveg frábært hjá mér að vera að koma með skoðanir um þetta. Það er bara jákvætt að það séu fleiri sem hafa skoðanir á þessu.“

Máni telur að framtíð íslenska liðsins sé björt. Blandan í liðinu nú sé góð, reynslumiklir leikmenn í bland við yngri.

„Gunnhildur Yrsa er að spila í einni bestu deild í heimi, Sara Björk er búin að spila með stærstu liðum Evrópu, Dagný er að spila á Englandi. Þetta eru þrír miðjumenn með gríðarlega reynslu. Svo ertu að fá leikmenn upp eins og Sveindísi, Karólínu og Glódísi, sem eru reyndar akkúrat á passlegum aldri. Þetta kvennalið á eftir að verða enn betra.“

Fólk má hins vegar ekki fara fram úr sér. Liðið á enn mikið inni.

„Ég held að sumir hverjir séu komnir langt fram úr sér því hinar þjóðirnar eru mjög góðar líka. Ég man þegar við komumst fyrst á EM. Þá vorum við farin að hafa áhyggjur af því að fleiri þjóðir væru farnar að leggja áherslu á kvennaboltann hjá sér, sem myndi þýða að það yrði erfitt fyrir okkur að halda í við þessar bestu þjóðir, því við værum svo fámenn. En okkur hefur bara tekist það fáránlega vel. Að við séum komin í fjórða skiptið inn á Evrópumót er alveg magnað afrek,“ segir Máni.

„Þegar maður sá riðilinn var leikurinn á móti Belgum eini leikurinn sem maður gat sagt að við værum sigurstranglegra liðið. Þegar við fórum í þennan Ítalíuleik vorum við aldrei sigurstranglegra liðið. Það er alveg stórfurðulegt að sjá það að mönnum finnist bara að við eigum að vinna þennan leik. Ég er ekki að gagnrýna þessa umræðu, mér finnst frábært að hún sé. Það eiga bara enn fleiri að vera komnir með áhuga á þessu.“

Máni er bjartsýnn á að stelpunum takist að vinna Frakkland í lokaleik riðlakeppninnar og komast í átta liða úrslit.

„Ég held við vinnum Frakkana. Ég er bjartsýnn maður að eðlisfari og það virðist vera mjög góður andi í þessu liði. Maður upplifir það og sér það alveg, eins og þegar Keflvíkingurinn Sveindís var að láta Ítalann heyra það fyrir að dýfa sér. Þetta eru alvöru víkingar. Frakkarnir eru búnir að vinna riðilinn og gætu verið aðeins rólegri á því.“

Framtíðin er björt

Máni segir framtíðina bjarta, jafnt hjá kvennalandsliðinu og knattspyrnu kvenna í heild.

„Það eru að koma upp fullt af ungum stelpum. Þær sem komu á undan þeim voru góðar fyrirmyndir, Katrín Jónsdóttir og þessar, þær skildu svo eftir sig þessar stelpur. Ég held að kvennafótbolti á Íslandi sé í stórsókn, enda erum við með tvö sæti í Meistaradeildinni þar, sem segir ýmislegt. Menn ættu að fara að horfa á að það eru að fara að vera miklu meiri tekjur í kvennaboltanum. Við sjáum það með þetta Evrópumót. Það er fullt af leikjum eftir en það er samt búið að slá aðsóknarmetið. Það er búið að seljast upp á stærstu velli Evrópu eins og enginn sé morgundagurinn. Ég held að íslensk félagslið þurfi að fjárfesta meira í kvennafótbolta því þar virðast góðar tekjur að fara að koma í framtíðinni, sem við getum sótt. Liðin sem komast í Meistaradeildina kvennamegin hér heima eru 50 milljónir, sem er bara sami peningur og menn eru að eyða í gamla karla til að komast í Sambandsdeildina.“

Kvennaknattspyrna hefur vaxið mikið á síðustu árum en getur gert það mun frekar, að sögn Mána. Hann bendir til að mynda á að minna sé um mjög stóra sigra, eitthvað sem var áberandi á árum áður.

„Svo ég vitni í vin minn Hemma Gunn, hann sagði að þetta væri bara eðlilegt (stórsigrar í kvennaknattspyrnu), kvennafótboltinn sé miklu yngri íþrótt og að þetta hafi verið svona í karlaboltanum einu sinni. Kvennafótboltinn er yngri og hann er bara að vaxa. Hann getur vaxið miklu meira, en það sem þyrfti að gerast er að konur fengju meiri áhuga á kvennabolta, þá yrði hann miklu fljótari að stækka. Staðreynd málsins er sú að karlar hafa meiri áhuga á kvennafótbolta en konur. Það er svo mikill möguleiki að stækka kvennafótboltann frekar.“