Ári eftir að Naomi Osaka bætti met Serenu Williams sem tekjuhæsta íþróttakona heimsins, setti Osaka ný viðmið á síðasta ári þegar tekjur hennar jukust um tæplega helming.

Tennisstjarnan var samkvæmt útreikningum viðskiptatímaritsins Sportico í 15. sæti yfir launahæsta íþróttafólk heims með 55,2 milljónir dala í tekjur á síðasta ári, eða rúmlega 6,7 milljarða íslenskra króna.

Osaka hafði bætt met Serenu árið 2019 þegar hún var með rúmlega 37,4 milljónir dala í heildartekjur, en á síðasta ári vann Naomi tvo risatitla. Þar að auki var hún með fimmtíu milljónir dala í aðrar tekjur.

Með því jukust heildartekjur Naomi um tæplega 47,6 prósent upp í rúmlega 55 milljónir dala.

Líkt og í fyrra eru Serena og Naomi einu konurnar á listanum yfir þá hundrað tekjuhæstu meðal íþróttamanna í heiminum.