Starfsmenn KSÍ eru bjartsýnir á að völlurinn verði í góðu standi þegar flautað verður til leiks í leik Íslands og Rúmeníu þann 26. mars næstkomandi eftir margra mánaða undirbúningsvinnu.

Sérstakur hitadúkur verður á vellinum í þrjár vikur ólíkt því sem var árið 2013 þegar slíkur dúkur var á vellinum í eina viku.

Að sögn starfshóps KSÍ er öryggi leikmanna fyrsti forgangur og að það gæti komið niður á útliti vallarins.

Fram kom á fundi í KSÍ í dag að undirbúningsvinnan hafi hafist síðasta sumar og var ákveðið að setja meiri kraft í hana í október síðastliðinn þegar líklegt var að Ísland væri á leiðinni í umspil.

Kristinn V. Jóhannesson, vallarstjóri Laugardalsvallar, benti á að völlurinn er viðkvæmur fyrir veðráttu og þá sérstaklega frosti. Stærstan hættan að sögn Kristins er frost og kal í grasinu.

Þannig hefur starfshópur KSÍ reynt að koma í veg fyrir pollamyndun á vellinum til að koma í veg fyrir að þar myndaðist frost og unnið með veðurfræðingum til að tryggja sem besta meðferð.

Strákarnir okkar eru tveimur leikjum frá EM 2020.
fréttablaðið/ernir

Til þess að auðvelda starf starfshóps KSÍ voru keyptir nýjir hita- og rakamælar,ásamt nýjum dúkum til að hylja völlinn betur.

Þá keypti KSÍ steinull til að einangra völlinn frá snjónum ef það myndi snjóa mikið en það hefur ekki komið til þess að hún sé notuð.

Stærsti liðurinn í því að koma vellinum í rétt stand er hitadúkurinn sem er væntanlegur til landsins í byrjun mars og verður á Íslandi í þrjár vikur.

Það koma fjórir starfsmenn að utan með dúknum til að fylgjast með að allt sé eftir bókinni og standa vaktina allan sólarhringinn.

Starfshópurinn mun setja hitadúkinn upp í byrjun mars og getur tekið hann niður ef veðurskilyrði leyfa.

Þetta er endurbætt útfærsla af hitadúkinum sem kom til Íslands á sínum tíma.