Kvennalið KR í knattspyrnu mun leika í efstu deild á næsta keppnistímabili en það var endanlega ljóst eftir 4-0 sigur liðsins á móti Þór/KA í leik liðanna í 16. umferð Pepsi Max-deildarinnar á Meistaravöllum í dag.

Bandaríski framherjinn Gloria Douglas skoraði tvö marka KR-liðsins í leiknum og ný-sjálenski miðvallarleikmaðurinn Betsy Hassett og Guðmunda Brynja Óladóttir sitt markið hvor.

KR hefur 19 stig eftir þennan sigur líkt og Stjarnan en liðin sitja í sjötta til sjöunda sæti deildarinnar. KR er nú níu stigum á undan Keflavík sem er í efra fallsætinu eins og sakir standa og hefur þar af leiðandi tryggt þátttökurétt í efstu deild næsta sumar.

Baráttan um að forðast það að hafna í tveimur neðstu sætunum og falla mun því standa á milli ÍBV sem hefur 12 stig, Keflavík sem er með 10 stig og HK/Víkings sem er á botninum með sjö stig.

ÍBV og HK/Víkingur eiga leik til góða en liðin mætast í Vestmannaeyjum í frestuðum leik á miðvikudaginn kemur. Þór/KA er í fjórða sæti deildarinnar með 24 stig.