Íslenska karlalandsliðið gerði sitt og vann mjög góðan 34-24 sigur á Svartfjallalandi í lokaleik milliriðilsins í dag. Næstu klukkutímana bíður íslenska þjóðin í stresskasti eftir úrslitunum í leik Danmerkur og Frakklands, fari svo að Danir vinni leikinn er Ísland komið í undanúrslit Evrópumótsins í handbolta.

Það var við hæfi að fyrirliðinn Aron Pálmarsson, sem var nýkominn úr einangrun, skoraði fyrstu tvö mörk leiksins. Þetta reyndust hins vegar einu mörk hans í fyrri hálfleik þar sem hann fór meiddur af velli.

Íslenska liðið mætti betur stemmdara í upphafi leiks, vörnin var þétt og fyrir aftan var Viktor Gísli að verja. Ísland komst í stöðuna 3-0 áður en að Svartfellingar minnkuðu muninn en að loknum fyrstu tíu mínútum leiksins var staðan 5-1 fyrir Ísland.

Svartfellingum gekk erfiðlega að finna leiðir fram hjá íslensku vörninni
GettyImages

Jafnræði var með liðunum framanaf næstu tíu mínúturnar. Svartfellingum tókst betur að finna markið en Íslendingar voru að sama skapi að finna glufur á vörninni þar sem að Ómar Ingi Magnússon fór fremstur í flokki með stoðsendingar á samherja sína, Íslendingar gáfu síðan í. Bilið jókst úr fjórum mörkum upp í átta mörk og hlutirnir lofuðu góðu. Staðan 12-4 fyrir Ísland eftir tuttugu mínútna leik.

Svartfellingar bitu þá frá sér og minnkuðu muninn úr átta mörkum niður í sex mörk, 12-6 sem varð til þess að Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Íslands tók leikhlé. Mest fór bilið niður í fimm mörk áður en Ýmir Gíslason skoraði langþráð þrettánda mark Íslands. Þá rönkuðu leikmenn Íslands við sér og komu bilinu upp í níu mörk, 17-8 fyrir leikhlé.

Bjarki Már var með 100% skotnýtingu í fyrri hálfleik, 4 mörk í 4 skotum
GettyImages

Svartfellingar skoruðu fyrstu tvö mörk seinni hálfleiks og komu stöðunni í 17-10, þá skoraði Elvar Ásgeirsson og braut markaskorunar ísinn í seinni hálfleik fyrir Ísland, staðan því orðin 18-10 fyrir Ísland.

Íslendingar réðu illa við Milos Vujovic sem skoraði næstu tvö mörk Svartfellinga og kom muninum niður í sjö mörk áður en að Ómar Ingi svaraði fyrir Ísland og staðan orðin 20-12. Svartfellingar skoruðu næstu tvö mörk leiksins og eftir fjörtíu leiknar mínútur stóðu leikar 21-14 fyrir Ísland.

Íslenska landsliðinu gekk illa að koma böndum á Milos Vujovic sem hafði á þessum tíma leiksins skorað 11 mörk úr tólf skotum. Sóknaraðgerðir Svartfellinga miðuðu við að finna téðan Vujovic sem minnkaði muninn niður í fimm mörk, 21-16 fyrir Ísland áður en að Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Íslands tók leikhlé.

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Íslands á hliðarlínunni í dag
GettyImages

Ómar skoraði langþráð mark Íslands strax eftir leikhléið og kom Íslandi aftur í sex marka forystu og Bjarki Már bætti síðan við öðru marki og kom Íslandi í stöðuna 23-16. Jafnræði var með liðunum næstu mínúturnar en bilið á milli liðana hélst og eftir fimmtíu mínútna leik stóðu leikar 26-19 fyrir Ísland.

Ómar Ingi lék á alls oddi og fékk kærkomna hvíld á 54. mínútu í stöðunni 30-22 eftir að hafa skorað 11 mörk fyrir Ísland. Það var í raun formsatriði fyrir Strákanna okkar að sigla sigrinum í höfn eftir það. Leikar enduðu með tíu marka sigri Íslands, 34-24.

Markahæstu leikmenn Íslands í leiknum voru þeir Ómar Ingi Magnússon með 11 mörk og Bjarki Már Elísson með 8 mörk. Viktor Gísli Hallgrímsson átti flotta frammistöðu í marki íslenska liðsins, varði 11 skot í leiknum og var með 36,7% markvörslu. Ágúst Elí Björgvinsson varði tvö skot og var með 40% markvörslu.

Íslenska landsliðið kláraði sitt og nú mun þjóðin bíða eftir niðurstöðum úr leik Danmerkur og Frakklands. Ísland fer í undanúrslit ef Danir vinna en mæta Noregi í leik um 5. sæti á mótinu og beint sæti á HM ef Frakkar fá stig eða tvö úr leiknum gegn Dönum.