Ísland fer með tvö stig inn í milliriðlana eftir sannfærandi 31-23 sigur á Marokkó í lokaleik F-riðilsins en næsti leikur liðsins er gegn Sviss á miðvikudaginn.

Eftir sigur Portúgals á Alsír í dag var það ljóst að allt annað en stórtap í kvöld myndi þýða að Ísland færi með stigin tvö inn í milliriðlana.

Það voru Marokkómenn sem byrjuðu leikinn betur. Sóknarleikurinn var stirður og boltinn var að tapast en með góðri markvörslu hélt Björgvin Páll Gústafvsson muninum niðri.

Um miðbik fyrri hálfleiks gekk sóknarleikurinn á lagið með Viggó Kristjánsson fremstan í fararbroddi. Seltirningurinn fór í sífelldar árásir sem vörn Marokkó réði illa við.

Með því náði Ísland fimm marka forskoti og leiddi með fimm mörkum í hálfleik. Illa gekk að hrista andstæðinga af sér í seinni hálfleik sem héldu sér lífi í leiknum fyrri hluta seinni hálfleiks.

Leikmenn Marokkó gáfu ekkert eftir í varnarleiknum og voru þrír sendir af velli með rauð spjöld fyrir groddaraleg brot.

Sigurinn var í raun aldrei í hættu og gat Guðmundur Guðmundsson leyft sér að dreifa álaginu þegar líða tók á seinni hálfleikinn.

Viggó og Ólafur Andrés Guðmundsson voru markahæstir í íslenska liðinu í kvöld með sex mörk hver.