Forsaga málsins er sú að Þór kærði úrslit leiksins og krafðist þess að úrslitin yrðu úrskurðuð ógild og leikurinn endurtekin. Fjölnir hafði betur í leiknum 83-78 en Þórsarar kærðu úrslit leiksins þar sem þeir töldu framkvæmd leiksins hafi ekki hafa verið reglum samkvæmt.

Fram kemur í frétt á heimasíðu Þórs að ástæða kærunnar séu handvömm starfsmanna á ritaraborði sem tóku fjögur stig af Þórsliðinu í þriðja leikhluta leiksins. 

Um ástæðu kærunnar segir orðrétt í fréttinni á heimasíðu Þórs: „Þegar 6:09 voru eftir af leikhlutanum og stigataflan sýndi 50-48 fyrir Fjölni var brotið á leikmanni Þórs í þriggja stiga skoti. 

Leikmaðurinn hitti úr öllum skotunum og þar með staðan 51-50 Þór í vil. Fjölni tókst ekki að skora í næstu sókn og Þórsliðið fór í sókn að nýju og leikmaður nr. 1 skoraði úr lay-upi. Þar með staðan 53-50 Þór í vil. 

Í næstu sókn Fjölnis gerði starfsmaður á ritaraborði þau mistök að draga 4 stig af Þór og staðan á stigatöflunni var þá skyndilega orðin 50-49 fyrir Fjölni. Fjölnir tapaði boltanum í sókninni og Þór hefði þar með getað náð enn meiri forystu.

Þarna gera áhorfendur og þjálfari Þórs athugasemdir þess efnis að stigin hafi verið dregin af Þór. Þegar 5:33 voru eftir af 3ja leikhluta stöðvar dómarinn leikinn meðan hann fer yfir leikskýrslu og stigatöflu og niðurstaða þeirra athugunar var að staðan á stigatöflunni, 50-49 væri rétt."

Í skýrslu aga - og úrskurðarnefndar KKÍ segir orðrétt um málið. „Skoðun á myndbandi af leiknum sýnir hins vegar að þetta voru augljós og grafalvarleg mistök. Það átti ekki að draga þessi stig af Þórsliðinu og rétt staða var 53-50 fyrir Þór. 

Það gefur augaleið að þetta atvik hafði mikil áhrif á gang leiksins eftir þetta og úrslit á leikskýrslu eru röng. Þórsarar höfðu verið fimm stigum undir í hálfleik og höfðu unnið þann mun upp og voru komnir þremur stigum yfir og á leið í sókn til að reyna að komst í fimm til sex stiga forystu þegar leikurinn var stöðvaður.

Þetta „móment" hjá liðinu var þannig drepið af starfsmönnum ritaraborðs sem upp úr þurru drógu fjögur stig af liðinu þannig að stöðva þurfti leikinn og fara yfir skýrslu. Óskiljanlegt er að reyndir dómarar hafi ekki uppgötvað mistökin eða fengið að líta á upptöku þar sem leikurinn var í beinni útsendingu á facebook síðu FjölnirTV, heldur kosið að treysta frekar upplýsingum starfsmanna á ritaraborði sem augljóslega skorti reynslu og kunnáttu." 

Fjölnismenn segja framkvæmdina hafa gengið vel

Rök Fjölnis fyrir því að úrslit leiksins standi eru svo rakin í úrskurðinum á eftirfarandi hátt.

„Kærði þ.e. Fjölnir hafnar alfarið rökum Þórs og tekur fram að í greinargerð kæranda að um sé að ræða venjubundna einhliða frásögn félagsins og taka verði þeirri lýsingu með almennum fyrirvara enda tapaði liðið leiknum. Fjölnir gerir athugasemdir við og hafnar því sem kemur fram í skýrslu Þórs. 

Þar segir, „Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við orðaval og orðfæri í kærunni enda látið í það skína að starfsmenn á ritaraborði hafi ekki kunnað nægilega vel á stigatöfluna og að flestum hafi verið það ljóst að þeir væru frekar óreyndir og óöruggir í sínum aðgerðum.” 

Síðar kemur fram í rökum Fjölnis að starfsmenn á ritaraborði séu vanir starfsmenn og hafi séð um flesta leiki drengjaflokks í vetur og nýlega búnir að fara á dómaranámskeið. Og að lokum segir kærði „Leikurinn gekk stóráfallalaust fyrir sig þar sem samvinna ritaraborðsins og dómara hafi verið góð” að mati kærða." 

Í greinargerð dómara leiksins kom fram að hann hafi farið vandlega yfir kæruna og staðfesti hann það sem þar sendur, þó með þeim fyrirvara að hann hafi ekki getað horft á leikinn aftur og væri því ekki 100% viss um hvort stigin hafi verið tekin af. Dómari leiksins segir þó að meðan á þessu hafi staðið hafi hann verið með skrítna tilfinningu á meðan þessu stóð og leið eins og eitthvað væri ekki alveg rétt.

Þórsarar telja að starfsmenn  hafi ekki starfinu vaxnir 

Fram kemur í frétt Þórs að þvert á yfirlýsingar Fjölnismanna um að starfsmenn ritaraborðs hafi verið vanir vekur athygli orð dómara í skýrslunni að starfsmenn ritaraborðs hefðu verið ungir drengir sem væru óvanir og það sýndi sig alveg í byrjun leiks þegar fresta þurfi byrjun hans vegna þess hve illa gekk að hreinsa út stigatöfluna. Reynist það rétt, að stig vanti, þá hafi það haft gríðarleg áhrif á gang leiksins” að mati dómara leiksins.

Þá segir í greinargerð dómara, varðandi umrætt atvik, að ritaraborðið hafi kallað á dómarann og tilkynnt honum að það hafi verið gerð mistök. Þá hafi hann farið yfir skýrsluna og þar virtist allt vera í góðu lagi. Þjálfari Þórs hafi komið til hans og spurt hvort einhver ákveðin stig væru á skýrslunni og dómarinn hafi játað því. Þá hafi þjálfarinn spurt frekar um stigaskráningu en ekkert misræmi hafi virst vera þar um.

Dómari leiksins hafi því tekið þá ákvörðun að fara eftir skýrslunni sem samkvæmt kæru á að vera röng. Í lok greinargerð dómara segir að reynist það rétt, að stig vanti, þá hafi það haft gríðarleg áhrif á gang leiksins því eins og tekið var fram í kæru, þá þurftu Þórsarar að brjóta alveg í endann og þannig haft klár áhrif á lokatölur leiksins, að mati dómarans.

Skrifstofa KKÍ fengin til aðstoðar við úrskurðinn

Aga- og úrskurðarnefnd óskaði eftir aðstoð skrifstofu KKÍ til að fara yfir og sannreyna stigaskor í  umdeildum leik. Í svari KKÍ kom fram að íþróttafulltrúa sambandsins hafi verið falið að horfa á leikinn og skrá niður leikskýrslu ásamt formanni sambandsins. 

Í stuttu máli þá er niðurstaða þessa athugunar að fjögur stig hafi vantað hjá Þór á leikskýrslu á umræddum tímapunkti. Mat aga- og úrskurðarnefndar er í stuttu máli að framkvæmd hins kærða leiks var ekki með eðlilegu móti. Sýnt hefur verið fram á að stigaskráningu á leikskýrslu var verulega áfátt eða sem nemur fjórum stigum sem vantaði hjá Þór. 

Þar segir, „Dómurum leiksins yfirsást þessi mistök einnig þegar hlé var gert á leiknum, en þá var misræmi milli leikskýrslu og leikklukku. Um er að ræða mjög alvarleg mistök. 

Mistökin verða aftur á móti í upphafi þriðja leikhluta eða þegar u.þ.b. 19 mínútur eru eftir af leiktíma. Stigaskráning á leikklukku er síðan leiðrétt um miðjan þriðja leikhluta. Allir þátttakendur leiksins eru því eftir þann tíma meðvitaðir um stigaskráningu leikskýrslu. Þannig leiku liðin í rúmlega 15 mín af leiktíma eftir að áhrif mistakanna eru öllum sýnileg á leikklukku, þ.e. röng skráning leiksskýrslu.

Ómögulegt er því að meta hver áhrifin hefðu verið á úrslit leiksins, ef stigaskor Þórs hefði verið rétt skráð allan leikinn. Með vísan til þess, og þrátt fyrir að um mjög alvarleg mistök sé að ræða, er það mat aga- og úrskurðarnefnd að ekki hafi verið sýnt fram á, án nokkurs vafa, að mistökin hafi með beinum hætti leitt til rangra úrslita. Er því kröfum kæranda í máli þessu hafnað.”

Kröfu Þórs um ógildingu og endurtekningu á leik Fjölnis og Þórs í undanúrslitum bikarkeppni drengjaflokks karla sem fram fór í Dalhúsum þann 2. febrúar 2019 er hafnað. 

Dóminn í held má lesa HÉR