Það ræðst í dag hvort íslenska karlalandsliðið í handbolta nær að tryggja sér sæti í fjögurra liða úrslitum á Evrópumótinu en liðið mætir þá Svartfjallalandi í síðustu umferð í milliriðli mótsins.

Eftir svekkjandi tap gegn Króatíu á mánudaginn þurfa leikmenn íslenska liðsins að safna orku og blása sér baráttuanda í brjóst fyrir lokabardagann á þessu stigi mótsins.

„Það sást nokkuð vel um miðbik seinni hálfleiks í leiknum við Króatíu að þeir leikmenn sem hafa borið sóknarleikinn uppi, Ómar Ingi Magnússon og Viggó Kristjánsson, voru eðlilega orðnir þreyttir.

Bæði voru þeir ekki jafn skarpir í sínum aðgerðum og ákvörðunartökurnar voru ólíkar því sem við eigum að venjast frá þeim,“ segir Einar Jónsson, þjálfari karlaliðs Fram um stöðu mála.

Gætu notað 7 á 6 meira

„Svartfellska liðið spilar svipaðan bolta og það króatíska og sá leikstíll hentar okkur ekkert sérstaklega vel. Þeir eru líkamlega sterkir og með öflugar skyttur. Varnarleikurinn hjá íslenska liðinu hefur verið góður lungann úr leikjunum á mótinu til þessa og vonandi verður áframhald á því í þessari viðureign.

Ég vona að þjálfararnir haldi áfram að leggja upp með að þétta niður á línuna og verjast gegnumbrotum. Svartfjallaland er hins vegar með mikla skotógn svo við verðum að stíga upp með varnarlínuna á réttum tímapunktum og treysta svo á að Viktor Gísli Hallgrímsson verji skotin fyrir utan,“ segir Einar enn fremur.

„Hvað sóknarleikinn varðar þá verðum við að reyna að halda floti á boltanum og fara í þær árásir sem lagt er upp með. Svo finnst mér líklegt að Guðmundur Þórður Guðmundsson og þjálfarateymið muni fara meira í 7 á 6 á ákveðnum augnablikum í þessum leik.

Það gafst vel í leiknum við Króata og við náðum að opna hornið og fá mörk þaðan sem er mikilvægt,“ segir hann um þau sóknarvopn sem íslenska liðið hefur.

Árangurinn framar vonum

„Ég skal alveg viðurkenna það að þegar smitin fóru að hrannast upp þá var ég ekkert sérstaklega jákvæður fyrir milliriðilinn. Ég bjóst ekki við sigri á móti Frökkum og að við værum hársbreidd frá því að vinna Króatíu. Fyrir mót fannst mér ásættanlegt að vera í topp átta á þessu móti.

Miðað við skakkaföllin er vel af sér vikið að vera að fara í leik sem gæti tryggt okkur sæti í undan­úrslitum mótsins í lokaumferð milliriðilsins.

Þetta mót gerir mig líka mjög spenntan fyrir framtíðinni og næsta stórmóti. Það eru leikmenn eins og Elvar Ásgeirsson og Orri Freyr Þorkelsson sem eru að auka breiddina í liðinu.

Elliði Snær Viðarsson er svo að vaxa með hverjum leiknum, bæði í vörn og sókn. Samvinna hans og Ýmis Arnar Gíslasonar, sem hefur tekið við leiðtogahlutverkinu í liðinu, hefur verið til fyrirmyndar. Framtíðin er klárlega björt, sama hvernig fer í dag,“ segir Einar um framhaldið.

Veiran skæða heldur áfram að hrella

Elliði Snær Viðarsson og Björgvin Páll Gústavsson greindust með jákvæð sýni þegar þeir fóru í sýnatöku vegna kórónaveirunnar í gær.

Þeir bætast þar af leiðandi í hóp þeirra 11 leikmanna sem eru í einangrun.

Það kemur svo í ljós í dag hvort einhverjir þeirra 11 leikmanna sem hafa verið í einangrun í fimm daga eru með nógu lágt gildi smits svo þeim sé heimilt að spila leikinn mikilvæga gegn Svartfellingum í dag.

„Það væri mjög sterkt að fá einhverja leikmenn inn í hópinn, bæði þar sem við höfum verið án lykilleikmanna í síðustu leikjum og þá hefur mikið mætt á sömu löppunum sem verða eðlilega þyngri með hverri mínútunni sem þær spila. Sjáum hvað blessuð gildin segja.

Sumir leikmenn eru með veigamikið hlutverk bæði í vörn og sókn og það tekur gríðarlega á. Sérstaklega þar sem leikmenn eins og Ómar og Viggó treysta mikið á fótavinnu og snerpu í sóknaraðgerðum sínum,“ segir Einar um stöðu mála hvað forföll varðar.

Þurfum að treysta á danska liðið

Íslenska liðið er því miður ekki með örlög sín í mótinu í eigin höndum fyrir lokaumferð milliriðilsins. Ísland verður að byrja á að hafa betur í leik sínum við Svartfellinga og treysta svo á að Danir vinni Frakka.

Nikolaj Jacobsen, þjálfari danska liðsins, kveikti ekki vonarneista í brjóstum Íslendinga um greiða frá frændþjóð vorri þegar hann ræddi við fjölmiðla um komandi leik Danmerkur við Frakkland.

Danir eru nefnilega búnir að bóka farseðil sinn í undanúrslitin og Jacobsen ýjaði að því að hann myndi hvíla sína sterkustu hesta í rimmu liðanna.

„Ég skal alveg viðurkenna það að ég er ekki bjartsýnn á hagstæð úrslit fyrir okkur í þeim leik. Jacobsen talaði þannig að þeir myndu ekki setja allt sitt púður í þennan leik og það er svo sem ekkert óeðlilegt.

Ég býst við frönskum sigri en vona innilega að ég hafi rangt fyrir mér mér og minni spámenn danska liðsins sýni hvað í þeim býr,“ segir Einar Jónsson um leik Dana og Frakka.