Þór/KA hafði betur, 3-0, þegar liðið mætti írska liðinu Wexford Youths í annarri umferð í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna í Belfast í Norður-Írlandi í kvöld. 

Norðankonur hófu leikinn af miklum krafti og Sandra María Jessen og Hulda Björg Hannesdóttir voru búnar að koma liðinu tveimur mörkum fyrir eftir tæplega tíu mínútna leik. 

Hulda Ósk Jónsdóttir bætti svo þriðja marki Þórs/KA við þegar um það bil tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum. Þar við sat og sannfærandi sigur Þórs/KA staðreynd. 

Þór/KA og Ajax eru bæði taplaus eftir fyrstu tvær umferðir riðlakeppninnar, en einungis efsta lið riðilsins kemst áfram í 32 liða úrslit keppninnar. Liðin leika þar af leiðandi hreinan úrslitaleik um að komast áfram í útsláttarkeppnina á mánudaginn kemur.