Kieran Tierney, leikmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Arsenal hefur nú opnað sig um erfiða tíma sem hann upplifði eftir að hafa gengið til liðs við enska úrvalsdeildarliðið Arsenal árið 2019. Tierney gekk til liðs við Arsenal frá skoska meistaraliðinu Celtic fyrir 25 milljónir punda árið 2019.

Hann hefur á tíma sínum hjá félaginu gert fína hluti en hefur einnig þurft að glíma við þrálát meiðsli sem og aðrar miður skemmtilegar aðstæður utan vallar. Leikmaðurinn ungi hefur meðal annars glímt við heimþrá og þá hefur hann misst tvo af vinum sínum sem frömdu sjálfsmorð.

,,Þetta var erfitt til að byrja með," sagði Tierney í samtali við The Sun um tíma sínn hjá Arsenal til að byrja með. ,,Heimþráin var til að mynda mjög mikil til að byrja með og ég átti mjög erfiðar stundir. Maður mætti á æfingar en eftir þær hafði maður mikinn tíma fyrir sjálfan sig þar sem að ég varð fangi hugsana minna. Ég segi samt ekki að ég hafi verið á það slæmum stað að ég íhugaði að taka mitt eigið líf en vinir mínir voru það hins vegar."

Tierney segir þá frá því hvernig nokkrir vinir hans hafi ákveðið að taka sitt eigið líf.

,,Maður er með þeim og veit ekki neitt hvað þeir eru að hugsa. Þeir töluðu ekki mikið um sína líðan og því tel ég mikla ábyrgð á mínum herðum að hvetja fólk til þess að tala um það hvernig því líður. Ég veit hvernig það er að vera langt niðri andlega."