Garðar spilaði með búlgarska liðinu CSKA Sofia á árunum 2008-2010 og upplifði erfiða tíma hjá félaginu. ,,Sérstaklega í Austur-Evrópu í löndum eins og í Búlgaríu, þá er klefamenningin mun verri en til dæmis hérna heima. Ég lenti til dæmis sjálfur í einelti þar og hef svo sem ekkert opnað mig um það út á við," segir Garðar í þættinum Kynstrin öll.

,,Búlgarar, sérstaklega karlmenn eru rosalega gamaldags í hugsunarhætti, sérstaklega hvað varðar kvenmenn og rasisma. Minnihlutahópar þar eiga erfitt og þá sérstaklega ef þú ert útlendingur."

Sem útlendingur í liðinu varð hann fyrir einelti af hendi annarra leikmanna liðsins, einstaklinga sem áttu að kallast liðsfélagar hans. ,,Í knattspyrnuheiminum vita leikmenn að maður er að koma þarna inn og þéna meira en þeir þannig að maður er strax tekinn fyrir. Ég talaði ekki tungumálið þeirra og þeir sitja bara í klefanum, benda á þig, hlægja og eru að segja eitthvað sín á milli," sagði Garðar í þættinum Kynstrin öll.

Garðar hefur talað opinberlega um klefamenningu í knattspyrnuheiminum út frá sinni reynslu. Hann segir margt jákvætt við menninguna. ,,Ísland er langt á veg komið. Menningin og stemmningin í klefanum er geggjuð á margan hátt og hún hefur bjargað mörgum lífum get ég bara sagt. Menn eru kannski að koma úr mismunandi aðstæðum og inn í öruggt umhverfi, geta tjáð sig við vini sína, skemmt sér og grínast og allt það."

En eins og í öðrum kimum samfélagsins, hvort sem það er í íþróttafélagi eða á stórum vinnustað, séu slæmar hliðar einnig sem þurfi að taka á. ,,Stundum fer auðvitað einhver umræða í gang, bara eins og á mörgum vinnustöðum. Umræða þar sem að hallar á hitt kynið og þá fara menn að grípa inn í til að vera fyndnir fyrir félagana og hjá þeim sem umræðan fer fyrir brjóstið á, kjósa kannski að þaga í staðinn fyrir að segja eitthvað á móti sökum hættu á því að vera mögulega talaðir niður."

Garðar segist sjálfur hafa tekið þátt í slíkri menningu sem knattspyrnumaður. Hann telur Ísland á réttri leið hvað þetta varðar og segir að aðalmálið sé að fræða komandi kynslóðir. ,,Þetta er bara eitthvað sem við þurfum að brýna fyrir komandi kynslóðum með fræðslu sem mér finnst vera að gerast núna," sagði Garðar Gunnlaugsson í þættinum Kynstrin öll sem var á dagskrá Ríkisútvarpsins.