Samkvæmt auglýsingu heilbrigðisráðherra sem birt var í gær verða golfvellir á höfuðborgarsvæðinu opnaðir á nýjan leik á morgun með ákveðnum skilyrðum.

Opnunin nær til allra valla á Reykjavíkursvæðinu en það er í höndum golfklúbbanna hvort að ákveðið verður að opna eða ekki enda veðurskilyrði til rekstrar orðnar erfiðar.

Þetta kemur fram í fréttabréfi GSÍ til kylfinga í morgunsárið.Farið verður aftur í takmarkanir sem voru í byrjun sumars.

Kylfingar verða hvattir til þess að sinna persónulegum sóttvörnum í hvívetna, virða tveggja metra fjarlægðarmörk og forðast hópamyndanir á golfvallasvæðunum, s.s. við golfskála og á bílastæðum.

Boltaþvottavélar verða fjarlægðar af völlum og hrífur teknar upp úr glompum. Þá er óheimilt að fjarlægja flaggstangir og sérstakur svampur verður settur í holubotninn til að hægt sé að sækja boltann án þess að snerta holuna.

Þá skal einungis sambýlisfólk deila golfbíl.