Íslenska kvennalandsliðið er á leiðinni á EM á Englandi og af því tilefni verður blásið til opinnar æfingar á Laugardalsvelli í dag klukkan 11:00. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Knattspyrnusambandi Íslands.
Eftir æfingu gefa leikmenn eiginhandaráritanir og þá geta stuðningsmenn liðsins fengið myndir af sér með leikmönnum. ,,Við hvetjum alla stuðningsmenn og konur til að mæta og kveðja landsliðið," segir í tilkynningu frá KSÍ.
Hliðin á Laugardalsvelli opna fyrir gestum klukkan 10:30.
Ísland er í riðli með Belgíu, Ítalíu og Frakklandi á Evrópumótinu en liðið mætir Belgíu í fyrsta leik sínum á mótinu sunnudaginn 10. júlí. Hins vegar er næsti leikur liðsins vináttuleikur gegn Póllandi ytra á miðvikudaginn.