Stimpill illmennisins virðist fastur við kylfinginn Patrick Reed. Hinn þrítugi Reed vann sitt níunda mót á ferlinum um helgina þegar hann vann nokkuð öruggan sigur á Farmers Insurance mótinu á PGA-mótaröðinni. Umtalið snýst hins vegar ekki um fimm högga forskot og góða spilamennsku Reed.

Á laugardeginum sást hann taka upp boltann áður en dómari mætti á svæðið þegar meta átti hvort boltinn væri sokkinn undir yfirborð jarðar. Atvikið sást greinilega í sjónvarpsútsendingum og sást boltinn klárlega skoppa en vallarstarfsmaður sem Reed ræddi við sagðist ekki hafa séð boltann skoppa. Dómarinn mat sem svo að boltinn hefði sokkið niður og gaf Reed heimild til að færa boltann en ákvörðun Reed um að fjarlægja boltann áður en dómari kom á svæðið hefur vakið mikla reiði.

Í yfirlýsingu frá mótaröðinni kom fram að Reed hefði ekki gerst sekur um að brjóta reglurnar en keppinautarnir eru flestir ósáttir. Xander Schauffele sem lenti í öðru sæti sagði í viðtölum eftir mót að mótaröðin héldi hlífiskildi yfir Reed og sagði aðra spilara ekki sátta. Fyrir tveimur árum var Reed tvisvar gripinn við að hrófla við sandinum í sandgryfju til að auðvelda næsta högg og dómnefnd ákvað að ávíta hann með vítahöggum. Þá steig Brooks Koepka fram og gagnrýndi Reed fyrir að svindla.

„Það má alveg taka undir það að þetta orðspor Patricks er ekki að hjálpa honum. Hann hefur alveg ótrúlega oft lent í einhverju svona og þessar aðstæður virðast leita hann uppi. Á sama tíma er merkilegt hvað hann virðist eflast við mótlætið,“ segir Úlfar Jónsson, margfaldur Íslandsmeistari í golfi og PGA-kennari, aðspurður hvort orðsporið væri að hafa áhrif á umræðuna til samanburðar við Írann Rory sem gerðist sekur um sömu mistök.

„Það er augljóst að boltinn hjá Reed hoppar eftir lendingu, sem gerir það nánast ómögulegt að hann geti grafist niður það mikið að kalli á fría lausn. Hann tekur boltann upp og samkvæmt golfreglunum er það klárt brot og hann ætti að fá víti. Dómarinn hins vegar sleppir honum við vítið, sem er óskiljanlegt og ekki til framdráttar fyrir PGA-mótaröðina.“

Slíkar sögur hafa einkennt feril Reed sem var sakaður um að fara á mis við reglurnar á sambærilegan hátt í háskóla þegar hann lék fyrir University of Georgia. Liðsfélagar hans sáu hann reyna að skipta um bolta og síðar var hann sakaður um að hafa stolið af liðsfélögum sínum en Reed hefur alltaf neitað þessu. Hann skipti um skóla og leiddi Augusta State til sigurs í bandaríska háskólagolfmótinu tvö ár í röð áður en hann gerðist atvinnumaður. Hann hefur átt nokkuð farsælan feril sem atvinnukylfingur en hegðun hans utan vallar hefur iðulega veitt honum greiða leið að forsíðum fjölmiðlanna. Í miðjum Ryderbikar árið 2018 fór Reed í viðtal þar sem hann gagnrýndi val fyrirliða bandaríska landsliðsins og sagði augljóst að kylfingar vildu ekki spila með honum, sama ár og hann húðskammaði sjónvarpstökumann á miðjum hring.

Þá var foreldrum hans vísað af vellinum á Opna bandaríska meistaramótinu árið 2014 en hann hefur ekki rætt við neinn innan fjölskyldu sinnar í rúm átta ár. Innan vallar er hann meðal bestu kylfinga heims.

„Það er á margan hátt erfitt að halda með honum þótt hann sé frábær kylfingur. Hann spilar leikinn á mjög fágaðan og fallegan hátt, hvernig hann slær boltann og stýrir honum. Hann er ekki að negla boltanum eins og sumir á mótaröðinni. Það er fallega hliðin á honum en svo kemur þessi hlið. Það er gerð krafa um heiðursmennsku í öllum íþróttum og sérstaklega golfi og hann virðist nokkuð reglulega vera að dansa alveg við línuna. Hann virðist oft vera kominn á beinu brautina en þá er aldrei langt í næsta atvik.“

Aðspurður sagðist Úlfar ekki vera viss hvort einhverjar afleiðingar yrðu af málinu.

„Ég er hissa á því að það virðist ekkert bíta á hann og hann virðist vera með mikið svigrúm. Fyrirtæki og styrktaraðilar halda í hann þrátt fyrir þetta orðspor.“

Fyrir vikið er hann ekki allra eins og sást bersýnilega árið 2018 þegar Reed vann sinn fyrsta risatitil í bakgarði æskuheimilis síns.

„Ég man eftir að ég var að lýsa Mastersmótinu árið 2018, þegar hann vinnur fyrsti risatitilinn og það í nágrenni við æskuheimili sitt. Hann átti frábært innáhögg til að vinna mótið á átjándu og það mátti heyra saumnál detta, með tíu þúsund áhorfendur. Þetta var ótrúlegt.“