Ólafur Kristjánsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Breiðablik, settist í settið í Íþróttavikunni með Benna Bó sem sýnd er á föstudögum á Hringbraut. Hann sat þar með Herði Snævari Jónssyni, íþróttastjóra Torgs og fóru yfir landsleikinn gegn Venesúela sem Ísland vann 1-0.

Ólafur benti á að erfitt sé að spá í leikinn gegn Albaníu á þriðjudag út frá æfingaleiknum gegn Venesúela. „Það var ekkert í þessum leik sem gaf einhver fyrirheit hvernig leikurinn við Albaníu verður. Ég veit að eflaust eru þjálfararnir að leita að og koma áherslum inn hjá liðinu. Við erum finnst mér ekki ennþá þar, því miður, að þetta sé skýrt. Það skín allavega ekki í gegn.

Samanburðurinn aftur er við lið sem var í gegnum langan tíma með ofboðslega skýr einkenni. Auðvitað vona ég að það takist og það náist.“