Smitin komu upp í tengslum við leikmann liðsins sem hafði ferðast til Portúgal eftir dvöl í Suður-Afríku þar sem hann virðist hafa smitast af veirunni.

Það varð hins vegar ekki ljóst fyrr en eftir leik liðsins gegn Benfica sem fór fram á laugardaginn síðastliðinn.

Belenenses þurfti að spila umræddan leik þrátt fyrir að stór hluti af leikmannahóp væri í sóttkví og einangrun. Liðið hóf leikinn með níu menn inn á vellinum og aðeins sjö þeirra sneru aftur til leiks í seinni hálfleik. Benfica vann leikinn 7-0.

,,Það voru nánast allir í einangrun fyrir utan unglingaliðið okkar, alls eru 44 einstaklingar í einangrun," sagði talsmaður Belenenses fyrr í dag.

Að sögn talsmannsins finna tveir til þrír leikmenn liðsins fyrir einkennum en aðrir eru einkennalausir.

Forsetar bæði Belenenses og Benfica hafa stigið fram og sagst ekki hafa haft um neitt annað að velja en að spila leikinn. Þeim hafi verið hótað með mögulegri refsingu ef leikurinn hefði ekki farið fram.

Heilbrigðisyfirvöld í Portúgal segir það ekki á sinni könnu að fresta leikjum í portúgölsku deildinni, heldur hafi það verið verkefni að kortleggja smitin og meta umfang þeirra.

Engin smit hafa komið upp í leikmannahóp eða starfsliði Benfica til þessa eftir leikinn. Næsti leikur liðsins í deildinni er á föstudaginn næstkomandi.