Ómar Ingi Magnússon landsliðsmaður í handbolta og leikmaður danska liðsins Álaborgar varð fyrir höfuðmeiðslum fyrir sex mánuðum síðan. Hann er enn að æfa einn síns liðs og ekki er útséð með hvenær hann getur snúið aftur inná handboltavöllinn.

Ómar Ingi varð fyrir meiðslunum í undanúrslitum dönsku úrvalsdeildarinnar síðastliðið vor en hann samdi skömmu síðar við þýska stórliðið Magdeburg um að leika með liðinu á næsta keppnistímabili.

„Ég er enn að æfa einn eftir prógrami frá læknum og sjúkraþjálfurum. Ég finn mun á mér í jákvæða átt frá viku til viku en ég er ekki kominn á þann stað að geta æft með liðinu ennþá. Ég hef hitt sérfræðinga bæði í Danmörku og Þýskalandi sem segja að þetta sé ekki þannig meiðsli að ég þurfi að leggja skóna á hilluna en segja þetta taki sinn tíma," segir Ómar Ingi í samtali við Fréttablaðið.

„Öll meiðsli sem taka svona langan tíma að jafna sig á taka á andlega heilsu en ég hef náð að halda andlegum styrk í gegnum þennan tíma. Ég hef fengið góða aðstoð í bataferlinu og það hefur hjálpað mér," segir Selfyssingurinn um stöðu mála hjá sér.

„Þetta eru hins vegar mjög óþægileg meiðsli að glíma við þar sem að það er enginn tímarammi sem maður hefur varðandi að koma til baka. Mér líður hins vegar ágætlega andlega og það er góðs viti að ég er að skána. Þessi meiðsli eru þannig að það er ekki skynsamlegt að fara fram úr sér og þolinmæði er nauðsynleg," segir hann enn fremur.

„Það er ómögulegt að vita hvenær ég get byrjað að æfa af fullum krafti aftur. Ég er hins vegar vongóður um að ég verði byrjaður að spila í tæka tíð fyrir Evrópumótið í janúar en við verðum bara að sjá til með það. Ég held allavega í vonina um að geta verið með þar," segir skyttan um framhaldið hjá sér.