Ómar Ingi Magnússon er markahæsti leikmaður Evrópumótsins í handbolta karla en Ómar Ingi skoraði 59 mörk í átta leikjum fyrir íslenska liðið.

Þessi frábæri handboltamaður skoraði þar af leiðandi 7,4 mörk að meðalatali í leik en hann var með 74 prósent skotnýtingu. Ómar Ingi þurfti 80 skot til þess að skora mörkin 59 en hann sendi einnig 3,5 stoðsendingar að meðaltali í leik á mótinu.

Pólverjinn Arkadiusz Moryto er næstur á listanum yfir markahæstu leikmenn mótsins með 46 mörk.

Ómar Ingi var öflugur á báðum endum vallarins.
Fréttablaðið/Getty

Hampus Wanne er sá leikmaður sem hefur skorað mest af þeim leikmönnum sem eru enn með í keppninni en Svíinn hefur skorað 41 mark. Þar á eftir kemur danska skyttan Mikkel Hansen með 39 mörk.

Mathias Gidsel, leikmaður Dana, hefur svo skorað 35 mörk og Spánverjinn Agustin Casado Marcelo og Frakkinn Dika Mem hafa skorað 31 mark hvor.

Spánn og Danmörk annars vegar og Frakkland og Svíþjóð hins vegar mætast í undanúrslitum mótsins í kvöld. Úrslitaleikurinn og leikurinn bronsið verða svo spilaðir á sunnudaginn.