Selfyssingurinn Ómar Ingi Magnússon er markahæsti leikmaður Evrópumótsins í handbolta að milliriðlunum loknum. Hann er með 49 mörk í sjö leikjum, eða sjö mörk að meðaltali í leik.

Næstur er Moryto Arkadiusz frá Póllandi með 46 mörk, rétt á undan Kay Smits frá Hollandi, sem var með 45 mörk í aðeins fimm leikjum.

Þar að auki hefur Ómar Ingi lagt upp 26 mörk fyrir liðsfélaga sína og því komið að 75 mörkum í sjö leikjum.

Ómar, sem var kosinn íþróttamaður ársins á dögunum, hefur dregið vagninn sóknarlega í fjarveru lykilleikmanna og alls komið að tæplega fjörutíu prósentum marka Íslands í leikjunum sjö til þessa.

Um leið hefur Ómar Ingi verið einkar skilvirkur í sóknarleiknum og heppnuðust 1.090 af 1.096 sendingum hans í fyrstu sjö leikjunum samkvæmt tölfræðiveitu EHF.