Ómar Ingi Magnússon, landsliðsmaður í handbolta og leikmaður Magdeburg hefur verið tilnefndur í kjöri á leikmanni maímánaðar í þýsku efstu deildinni.

Þetta er þriðja mánuðurinn í röð sem Ómar Ingi kemur til greina sem leikmaður mánaðarins.

Þessi klóka og öfluga skytta skoraði 46 mörk fyrir Magdeburg í þeim leikjum sem fram fóru í maí eða 9,2 mörk að meðaltali í leik.

Ómar Ingi er eins og sakir standa í öðru sæti á listanum yfir markahæstu leikmenn deildarinnar með 226 mörk en hann hefur skorað 14 mörkum minna en Marcel Schiller hornamaður Göppingen.