Formaður bandarísku Ólympíunefndarinnar, Sarah Hirshland, segir að það séu vonbrigði að heyra að Alþjóðaíþróttadómstóllinn (e. Court of Arbitration for Sport) hafi fellt niður keppnisbann yfir hinni fimmtán ára gömlu Kamilu Valievu frá Rússlandi.

„Við erum vonsvikin yfir skilaboðunum sem þessi ákvörðun sendir. Það er á ábyrgð okkra allra að verja heiðarleika íþróttanna og krefjast þess að það séu allir að keppa á sömu forsendum. Í dag var því hafnað og þetta virðist vera annar kafli í kerfisbundinni vanvirðingu fyrir íþróttum án lyfja meðal Rússa,“ kom fram í viðtali við Söruh sem birtist á Reuters í dag.

Alþjóðaíþróttadómstóllinn úrskurðaði í dag að fella úr gildi keppnisbann Valievu þrátt fyrir mótspyrnu Alþjóðaólympíunefndarinnar, Alþjóðalyfjaeftirlitsins og Alþjóðaskautasambandsins.

Var þar meðal annars litið til sérstöðu máls Valievu enda er ekki til regluverk fyrir tilvik þegar einstaklingur sem féll á lyfjaprófi er ekki á fullorðinsaldri.

Hin fimmtán ára gamla Valieva átti stóran þátt í sigri liðs rússnesku Ólympíunefndarinnar í liðakeppninni á listskautum á dögunum en það á enn eftir að úrskurða hvort að rússneska liðið verði dæmt úr leik.