Dick Pound, meðlimur Alþjóðaólympíunefndarinnar, greindi frá því fyrr í dag að Ólympíuleikarnir sem áttu að fara fram í Tókýó í sumar verði frestað vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Að því er kemur fram í frétt USA Today verður leikunum líklega frestað til ársins 2021 en unnið verður að frekari útfærslu næstu vikur.

„Leikarnir munu ekki hefjast 24. júlí, svo mikið veit ég,“ sagði Pound í samtali við USA Today Sports en hann sagði að næstu ákvarðanir verði teknar í skrefum. „Við munum fresta þessu og byrja að takast á við afleiðingarnar af því að færsa leikana, sem eru gífurlegar.“

Forseti nefndarinnar tilkynnti í gær að næstu fjórar vikur færu í það að ákveða hvað verður um leikana en sagði það ekki vera í myndinni að aflýsa leikunum. Leikunum hefur aðeins þrisvar sinnum áður verið frestað, árin 1916, 1940 og 1944, vegna fyrri og seinni heimsstyrjaldanna.

Fjölmörgum íþróttaviðburðum hefur nú þegar verið frestað vegna faraldursins en íþróttamenn hafa hvatt stjórnendur til að fresta Ólympíuleikunum í ljósi stöðunnar. Kanadískir og ástralskir íþróttamenn hafa þegar lýst því yfir að þeir muni ekki taka þátt í leikunum ef þeir fara fram í sumar.