Skipuleggjendur Ólympíuleikanna í Tókýó greindu frá því í dag að heildarkostnaður leikanna í fyrra hafi kostað um 1,42 trilljónir jena eða tvöfalt meira en gert var ráð fyrir í fyrstu.

Fjallað er um málið á vef AP News og þá staðreynd að veik staða japanska jensins gerir það að verkum að hægt sé að áætla að heildarkostnaðurinn í bandarískum dollurum sé um 13,33 milljarðir dollara eða hátt í tvær billjónir íslenskra króna.

Með því var heildarkostnaður leikanna tvöfalt hærri en búið var að gera ráð fyrir í kostnaðaráætlunum.

Fresta þurfti leikunum um eitt ár vegna Covid-19 faraldursins og fór stærstur hluti leikanna fram fyrir luktum dyrum.

Talið er að útilokun áhorfenda hafi kostað mótshaldara um 800 milljónir dollara.