Írski Ólympíu­keppandinn Jack Wooll­ey varð fyrir fólsku­legri líkams­á­rás úti á götu í Dublin á Ír­landi í gær­kvöldi. Um var að ræða til­efnis­lausa árás og mátti hann sín lítils þrátt fyrir að vera einn besti taekwondo-keppandi heims.

Wooll­ey birti færslu á Insta­gram-síðu sinni í dag þar sem hann fór yfir það sem gerðist.

Í færslunni sagðist hann hafa farið út að borða með vini sínum og svo á pöbbarölt um mið­borg Dublin. Á heim­leiðinni mætti hann hópi 8-12 ung­menna sem gerðu sér að leik að veitast að veg­far­endum sem áttu leið fram­hjá þeim.

„Því miður réðst einn úr hópnum á mig þar sem ég gekk fram­hjá þeim,“ segir hann og bætir við að hann hafi fengið eitt þungt hnefa­högg í and­litið með fyrr­greindum af­leiðingum.

Myndina af af­mynduðu and­liti Wooll­ey má sjá hér að neðan en at­hygli er vakin á því að hún kann að vekja óhug hjá sumum.

Í færslunni sagði Wooll­ey að eftir hnefa­höggið hafi hópurinn hlaupið á brott, haldið upp­teknum hætti og ráðist að fleiri veg­far­endum. Wool­ey var fluttur með sjúkra­bíl á sjúkra­hús þar sem hann gisti í nótt. Hann tók svo fram í færslunni að hann væri að bíða eftir því að komast í að­gerð á and­liti.

Móðir hans, Annette, sagði í sam­tali við írska blaðið The Echo að sonur hennar væri heppinn að ekki fór verr. Skammt frá staðnum þar sem at­vikið varð í gær­kvöldi varð hnífs­tunga, en ekki kemur fram hvort sami hópur og réðst að Wooll­ey sé grunaður í þeirri árás.