Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid tóku í gær á móti fulltrúum Íslands á Ólympíuleikum fatlaðra sem hefjast þann 24. ágúst næstkomandi í Tókýó. Hópurinn heldur af stað til Japan sunnudaginn 15. ágúst og mun dvelja frá 16. ágúst til 21. ágúst við æfingar í Tama þegar keppendurnir færa sig yfir í Ólympíuþorpið.

Forseti Íslands tók einkar vel á móti hópnum og minntist þess að hans fyrsta opinbera heimsókn í embætti forseta hefði verið einmitt á Ólympíuleikar fatlaðra í Ríó de Janeiro árið 2016.

Boðið var upp á dýrindis pönnukökur í sykruðu útgáfunni og rjóma-útgáfunni og mældist bakkelsið sérlega vel fyrir hjá hópnum. Svo hraustlega var tekið til kræsinganna að við brottför var ekki einvörðungu þakkað fyrir sig með lófataki tileinkuðu forsetahjónunum heldur einnig vertinum.

Þórður Árni Hjaltested formaður ÍF færði forsetahjónunum landsliðstreyjuna sem hópurinn mun klæðast við setningarhátíð Paralympics þann 24. ágúst næstkomandi.

Alls munu sex íslenskir keppendur taka þátt á leikunum en fimm af þeim munu taka þátt í sínum fyrstu leikum á ferlinum. Það eru handahjólreiðakonan Arna Sigríður Albertsdóttir, sundfólkið Már Gunnarsson, Thelma Björg Björnsdóttir og Róbert Ísak Jónsson og frjálsíþróttafólkið Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir og Patrekur Andrés Axelsson.