Búið er að fresta fyrstu fjórum keppnum ársins í Formúlu 1 og er óvíst hvort að tímabilið hefjist fyrr en í júní í Azerbaídsjan.

Tilkynnt var á síðustu stundu að kappakstrinum í Melbourne yrði aflýst eftir að bifvélavirki McLaren greindist með kórónaveiruna.

Áður var búið að fresta kappakstrinum í Kína og tilkynna að keppnin í Bahrain færi fram fyrir luktum dyrum en nú er búið að gera hlé á tímabilinu.

Keppnirnar í Hollandi, Mónakó og á Spáni eru enn á dagskrá en erlendir fjölmiðlar fullyrða að ólíklegt sé að þær fari fram.

Það myndi þýða að tímabilið hæfist í Bakú í byrjun júní sem átti að vera áttundi kappakstur ársins.