Þannig hljómar Facebook færsla frá körfuknattleiksdeild Vestra, félags sem staðsett er á norðanverðum Vestfjörðum. Halda átti fjölliðamót á vegum KKÍ í Bolungarvík um helgina en mótið hefur verið blásið af vegna þess að lið Aftureldingar og ÍR drógu sig úr keppni. Ástæður að minnsta kosti eins liðs voru þær að foreldrar iðkenda hefðu ekki viljað senda þá til Vestfjarða.

Færsla Vestra á Facebook
Skjáskot

Þórir Guðmundsson, formaður barna- og unglingaráðs Vestra, var ómyrkur í máli í samtali við Fréttablaðið. ,,Þetta er náttúrulega bara ógeðslega sorglegt. Við erum að leggja þvílíkt á okkur að halda úti starfi hérna og það er draumur allra iðkenda okkar að fá að spila á heimavelli fyrir fólkið sitt. Það er þvílík tilhlökkun af svona móti, ég bara veit það sjálfur því ég hef sjálfur tekið þátt í þessu."

Þórir Guðmundsson, formaður barna- og unglingaráðs körfuknattleiksdeildar Vestra
Mynd: Þórir

Hann segir ákvörðun félaganna sem drógu sig úr leik bitna mest á iðkendunum sjálfum. ,,Þetta er svo mikið reiðarslag fyrir þessa krakka, að lið vanvirði okkur svona með því að koma ekki er bara ömurlegt."

Þórir segir þetta ekki vera í fyrsta skipti sem blása verði af mót hjá félaginu. ,,Þetta gerist ítrekað og ekki bara í körfuknattleiksdeild Vestra heldur í öðrum deildum félagsins og hjá öðrum liðum út á landsbyggðinni.

Hann gefur lítið fyrir þær skýringar sem hafa verið gefnar. ,,Ég meina það er verið að auglýsa Vestfirði út í heimi sem besta áfangastað árið 2022 en það eru foreldrar barna í Reykjavík sem þora ekki að senda börnin sín hingað. Ég bara næ þessu ekki, þetta er svo mikil vanvirðing."

Segir gremjuna skiljanlega

Snorri Örn Arnaldsson, mótastjóri Körfuknattleikssambands Íslands, segist skilja gremju Vestramanna hvað þessi mál varðar. ,,Þetta átti að vera fjögurra liða mót upphaflega, svo gerist það að eitt liðið dregur sig úr keppni. Ástæðan sé sú að þau segjast ekki ná í lið og hvort það sé vegna foreldra eða einhvers annars veit ég ekki. Hitt liðið dregur sig síðan úr keppni á þriðjudaginn vegna þess að foreldrar segjast ekki vilja senda börnin vestur."

Snorri Örn Arnaldsson, mótastjóri KKÍ
Mynd: KKI.is

Hann segir þetta bagalegt fyrir félag eins og Vestra sem þurfi að fara langar vegalengdir í sína útileiki. ,,Það er bara alls ekki gott að lið veigri sér við þvi að fara vestur. Liðin að vestan eru að fara annaðhvort suður, norður eða austur nánast í hverri einustu umferð nema í þessi fáu skipti sem þau fá heimaleiki þannig að gremjan er skiljanleg."

Samkvæmt Snorra getur KKÍ beitt ákveðnum viðurlögum í þessum efnum. ,,Stundum eru góðar og eðlilegar ástæður fyrir ákvörðun félaga um að taka ekki þátt og stundum ekki. Það eru viðurlög við þessu. Liðin falla úr keppni og stundum fá þau að koma inn aftur en það eru svo líka sektarákvæði sem við getum beitt en við eigum eftir að setjast niður og skoða þetta mál.

Aðspurður að því hvort að mál sem þetta gefi tilefni til þess að taka það til umræðu í stjórn KKÍ segir hann það mögulegt. ,,Þetta er eflaust mál sem fer frá mótanefnd og inn á borð stjórnar KKÍ. Sem betur fer hefur það samt verið þannig að það hefur verið þó nokkuð um mót út á landsbyggðinni en það hefur samt komið fyrir í gegnum árin að lið hafi ekki mætt."

,,Eitt skipti er í raun of oft. Lið sem skrá sig til leiks í móti eiga að eiga von á því að lenda í ferðalögum fyrir leiki og þú átt að mæta í þá leiki sem eru á þinni leikjadagskrá," sagði Snorri Örn Arnaldsson, mótastjóri KKÍ í samtali við Fréttablaðið.