Um síðustu helgi greindist leikmaður kvennaliðs Fylkis í knattspyrnu með kórónaveiruna. Var leikmannahópur Fylkisliðsins í kjölfarið settur í sóttkví og tveimur leikjum liðsins frestað.

Fram kemur í tilkynningu sem Fylkir setti á facebook-síðu sína í dag að leikmannahópur Fylkis hefur verið skimaður fyrir kórónaveirunni og enginn leikmaður liðsins reyndist jákvæður af COVID-19.

Tilkynningu Fylkis í heild sinni má sjá hér að neðan:

„Líkt og áður hefur verið greint frá þá kom upp Covid 19 smit hjá leikmanni meistaraflokks kvenna í knattspyrnu sl. helgi. Í kjölfarið var viðkomandi leikmaður settur í einangrun og aðrir leikmenn og þjálfarar í úrlausnarsóttkví.

Félagið hefur unnið náið með smitrakningarteymi sóttvarnarlæknis og Almannavarna sl. daga. Liggur nú fyrir að flestir leikmenn og þjálfarar flokksins verða áfram í sóttkví fram í næstu viku.

Á mánudag fór allur hópurinn í sýnatöku. Niðurstöður hafa borist úr öllum prófum og voru öll próf neikvæð, þ.e. enginn úr hópnum greindist með Covid 19. Er því útlit fyrir að ekkert smit hafi átt sér stað. Bindum við vonir við að svo haldist áfram og að um einangrað tilvik hafi verið að ræða hjá umræddum leikmanni félagsins.

Líkt og fram kom í gær er búið að sótthreinsa Fylkishöllina og vallarsvæðið og hefur öll dagskrá á svæðinu verið með eðlilegum hætti frá því í gærmorgun.

Enn og aftur ítrekum við til allra okkar félagsmanna að sýna fyllstu aðgát og varfærni og brýnum fyrir félagsmönnum að fylgja tilmælum Almannavarna um tveggja metra fjarlægð, handþvott og aðrar hreinlætisvenjur."