Íþróttafréttamaðurinn margreyndi, Guðjón Guðmundsson, segir að öll helstu handboltalið heims reyni nú að klófesta íslenska landsliðsmanninn Gísla Þorgeir Kristjánsson, leikmann Magdeburg í Þýskalandi.
Frá þessu greinir Gaupi í færslu á samfélagsmiðlinum Twitter en það skyldi engan undra að kraftar Gísla Þorgeirs séu eftirsóttir, enda einn besti handboltamaður heims um þessar mundir.
„Öll bestu lið heims vilja nú klófesta Gísla Þorgeir Kristjánsson. Barcelona, PSG og Kiel. Magdeburg reynir nú allt sem þeir geta að halda Gísla,“ skrifar Gaupi meðal annars í færslu sinni á Twitter.
Gísli Þorgeir hefur verið á mála hjá Magdeburg síðan árið 2020 og unnið þar alla helstu titla sem í boði eru. Þar áður hafði hann verið á mála hjá Kiel en félagið sagði upp samningi hans á sínum tíma eftir meiðslavandræði Gísla.
Forvitnilegt verður að fylgjast með framvindu mála hjá þessum öfluga íslenska handboltamanni á næstunni.
Öll bestu lið heims vilja nú klófesta Gísla Þorgeir Kristjánsson. Barcelona, PSG, og Kiel. Magdeburg reynir nú allt sem þeir geta að halda Gísla. Í dag einn besti handboltamaður heims. Kemur mér ekki á óvart.Eina.
— Guðjón Guðmundsson (@gaupinn) March 14, 2023