Kyrie Irving gæti átt yfir höfði sér refsingu frá NBA deildinni í körfubolta fyrir að hafa tekist að gefa Bam Adebayo treyju sína í lok leiks Brooklyn Nets og Miami Heat í vikunni. Þetta var annar leikur liðanna á tveimur dögum, en í fyrri leiknum birtist myndband af því þegar öryggisvörður stöðvaði þá í treyjuskiptum. Strangar reglur NBA-deildarinnar til að hemja útbreiðslu kórónaveirunnar banna leikmönnum þessa iðju. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kyrie fer á svig við kröfur deildarinnar um sóttvarnir, en hann var sektaður um fimmtíu þúsund dollara fyrir að mæta grímulaus í afmælispartí hjá systur sinni fyrr í þessum mánuði og gæti deildin reynt að setja fordæmi fyrir veturinn með leikbanni eða hárri fjársekt.

Það fer ekki á milli mála að Irving er meðal betri bakvarða NBA-deildarinnar og átti stóran hlut í fyrsta meistaratitli Cleveland Cavaliers árið 2016. Þegar hann samdi við Brooklyn Nets með Kevin Durant, var beðið með eftirvæntingu á meðan Durant náði sér af meiðslunum enda áttu þeir tveir að geta myndað kjarna liðs sem gæti gert atlögu að meistaratitli. Meistarakandídatarnir urðu svo að sigurstranglegasta liðinu þegar Nets bætti James Harden við leikmannahópinn og eiga þeir þrír að gera atlögu að fyrsta meistaratitlinum í sögu félagsins.

Kyrie Irving

Sá gallinn er hins vegar á Kyrie Irving að það getur verið erfitt að lesa í hann, eins og sást bersýnilega fyrr í þessum mánuði þegar hann ákvað skyndilega að gefa ekki kost á sér í tæpar tvær vikur og missti fyrir vikið af sjö leikjum. Í viðtölum baðst Kyrie undan því að útskýra fjarveruna en var fljótur að hrista af sér ryðið og hefur leikið vel í undanförnum leikjum. Þá er frægt þegar hann fór skyndilega að ræða möguleikann á því að jörðin væri flöt eftir að hafa horft á myndir um kenninguna og þegar hann dreifði salvíu yfir parketið á heimavelli Boston Celtics í fyrsta leik sínum á gömlum heimavelli til að hreinsa út neikvæðu orkuna.

Minna heyrist af góðverkum hans utan vallar þar sem Irving virðist vera mikill öðlingur. Irving er duglegur að leggja til peninga og nauðsynjavörur fyrir fjölskylduhjálparstöðvar í Bandaríkjunum og keypti hús fyrir fjölskyldu George Floyd eftir að Floyd var myrtur af lögregluþjóni á síðasta ári. Þá var hann tilbúinn að borga leikmönnum í WNBA, sterkustu kvennakörfuboltadeild heims, laun sín, ef þær gáfu ekki kost á sér vegna kórónaveirufaraldursins en sú upphæð taldi 1,5 milljónir dala.

Sigurður Orri Kristjánsson, einn af ritstjórum Karfan.is og hlaðvarpsstjóri Boltinn lýgur ekki, hlaðvarps um innlendan og erlendan körfubolta, tók undir að Kyrie virtist oft vera misskilinn snillingur.

„Kyrie er ótrúlega vinsæll hjá öðrum leikmönnum deildarinnar. Hann er hærra skrifaður hjá kollegunum innan deildarinnar en fjölmiðlamönnunum, þrátt fyrir að hafa sett niður eitt af stærstu skotum NBA-sögunnar í úrslitunum 2016 þegar Cleveland vann titilinn. Hann getur gert hluti með boltann sem enginn annar kann að gera.“

Sigurður tók undir að það væri sérkennileg staða fyrir þjálfara að vera með leikmann í slíkum gæðaflokki sem erfitt væri fyrir þjálfarann að lesa.

„Þetta var mjög sérkennilegt atvik, þegar hann hvarf bara í viku, þarf svo að taka út tíma í sóttkví og missir fyrir vikið af átta leikjum. Eins og tímabilið er í NBA skiptir miklu máli að skapa liðsanda í þessum leikjum,“ segir Sigurður um Kyrie, sem virðist eyða miklum tíma í að skoða samsæriskenningar.

„Það kæmi mér ekkert brjálæðislega á óvart ef hann kaupir ekki þennan heimsfaraldur. Hann er mikið í því að fylgjast með samsæriskenningum og að mörgu leyti einkennilegur maður. Ég hafði mjög gaman af þessu og hef fjallað um þetta í hlaðvarpinu, hann virðist vera mjög andlega þenkjandi og það kæmi manni ekkert á óvart að sjá hann í kakóseremóníum.“

Hann tók undir að á sama tíma væri Kyrie, sem er varaforseti leikmannasamtakanna, mikill öðlingur.

„Hann virðist á sama tíma vera mikill öðlingur og góður maður. Þegar NBA-deildin hófst aftur í búbblunni var hann gagnrýninn á að vera að nýta kórónaveirupróf frá öðrum í þetta. Það getur verið erfitt að lesa þess á milli, stundum virðist hann hálf áhugalaus innan vallar og stundum í stríði við fjölmiðlana en svo er hann frábær þess á milli.“