Kári Árnason leikmaður Víkings fór meiddur af velli í leik íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Albaníu í gærkvöldi. Svo virtist sem Kári hafi tognað aftan í læri en ekki hefur verið staðfest hvers eðlis meiðslin eru.
Erik Hamrén sagði á blaðamannafundi eftir leikinn í gær að hann vissi ekki hversu alvarleg meiðslin væru en Kári hafi virkað þjáður og hafi átt erfitt með hreyfingar.
Sé Kári tognaður aftan í læri mun hann ekki leika með Víkingi þegar liðið mætir FH í bikarúrslitum á laugardaginn kemur.
Það væri mikið áfall fyrir Víking sem freistar þess að verða bikarmeistari í fyrsta skipti síðan árið 1971.