Ólafur Stefáns­son, einn allra besti hand­bolta­maður Ís­lands og heims frá upp­hafi segir að eftir að hann lagði skóna á hilluna sé að­eins einn leikur sem sitji eftir, leikur sem hann á erfitt með að vinna úr. Leikurinn gegn Ung­verja­landi á Ólympíu­leikunum árið 2012.

Heim­spekingurinn og fyrrum lands­liðs­maður Ís­lands, Ólafur Stefáns­son er í ítar­legu við­tali sem birtist á heima­síðu Evrópska hand­knatt­leiks­sam­bandsins (EHF). Í við­talinu fer Ólafur meðal annars yfir feril sinn og tímann með ís­lenska lands­liðinu sem náði á­kveðnum há­punkti árið 2008 þegar liðið vann til silfur­verð­launa á Ólympíu­leikunum í Peking.

Silfurlið Íslands á Ólympíuleikunum 2008 í Peking
Fréttablaðið/Vilhelm

Ólafur segist hins vegar eiga erfitt með að hugsa til baka til Ólympíu­leikanna fjórum árum síðar í Lundúnum þar sem ís­lenska liðið tapaði í átta liða úr­slitum gegn Ung­verja­landi.

„Við vorum með besta lands­lið Ís­lands frá upp­hafi, unnum Frakka í fyrsta skipti á stór­móti, við vildum þessa gull­medalíu. Svo hrundi allt," segir Ólafur í við­tali við EHF.

Leikarnir í Lundúnum árið 2012 fóru stór­kost­lega af stað fyrir Ís­land. Liðið vann alla fimm leiki sína í riðla­keppninni, lagði þar meðal annars af velli stór­þjóðir í hand­bolta­heiminum, Frakka og Svía og tryggði sér sæti í átta liða úr­slitum.

Í átta liða úr­slitunum var mót­herjinn lið Ung­verja­lands sem hafði komist með herkjum upp úr sínum riðli, unnið tvo leiki og tapað þremur. Ís­land leiddi með einu marki fyrir loka­sóknina, 27-26 og hafði boltann þegar 15 sekúndur voru eftir af leik­tímanum. Brotið var á Ólafi og víta­kast dæmt.

Ólafur í leik með Íslandi á Ólympíuleikunum 2012
Fréttablaðið/GettyImages

Snorri Steinn Guð­jóns­son tók víta­kastið, það var farið og Ung­verjar náðu frá­kastinu, brunuðu í hraða­upp­hlaup og náðu inn jöfnunar­marki. Leikurinn fór í fram­lengingu þar sem Ung­verjar sigldu sigrinum heim og slökktu vonar­neista Ís­lendinga um verð­laun á leikunum.

Ólafur segir þetta eina leikinn sem sitji eftir, eini leikurinn sem hann á erfitt með að vinna úr eftir sinn glæsta feril sem at­vinnu- og lands­liðs­maður í hand­bolta.

„Eftir allan minn feril er þetta eini leikurinn sem ég hef ekki unnið úr og er þetta til marks um það hversu stutt feigðar og fegurðar í í­þróttinni," sagði Ólafur Stefáns­son í við­tali við EHF.