Ólafur Stefánsson, fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður í handbolta, margfaldur meistari í handbolta, lýst vel á möguleika Íslands á Evrópumótinu sem hefst á föstudaginn fyrir Ísland með leik gegn Portúgal.

Aðspurður að því hvernig honum lýtist á mótið fyrir hönd íslenska liðsins, segir Ólafur Stefánsson, fyrrum landsliðsmaður og atvinnumaður í handbolta í samtali við RÚV að honum lýtist bara vel á það. ,,Ég held að fólk sé bara aðeins að finna tóninn í leikmönnum og það er eitthvað í loftinu."

Ísland verður í riðli með Portúgal, Hollandi og Ungverjalandi. ,,Ég held ég tali fyrir fleiri en sjálfan mig þegar að ég segi að við vorum ekki góðir í fyrra. Maður finnur það núna að liðið vill meira og þá þýðir það augljóslega að markmiðið er að komast upp úr riðlinum, það væri frábært ef við gætum tekið stig með í milliriðil. En fyrsta og aðalmálið er að vinna Portúgal í fyrsta leik, byrja þar því það er lykilleikur," sagði Ólafur Stefánsson í samtali við RÚV.

Aron Pálmarsson er heill heilsu og klár í slaginn
GettyImages

Bestu leikmenn Íslands hafa verið að spila frábærlega með sínum félagsliðum undanfarið og eru heilir heilsu. Kynslóðaskipti hafa átt sér stað í íslenska landsliðinu undanfarin ár, getum við farið að gera meiri kröfur á liðið núna? ,,Augljóslega þurfum við að setja þá kröfu að okkar bestu menn geri slíkt hið sama þegar að þeir klæðast búningnum og með sínu félagsliði. Þetta lýtur allt nokkuð vel út en veikleikarnir okkar, eitthvað sem maður er svona aðeins hræddur um er markvarslan sem að auðvitað tengist vörninni og það sama með línumennina, þeir þurfa að fara hreyfa sig betur, grípa boltann betur og allt það."

Gummi setur sína eigin pressu

Myndi Ólafur segja að það væri óvenjulega mikil pressa á Guðmundi Guðmundssyni, landsliðsþjálfara Íslands, eftir óvenju slæmt gengi á síðasta stórmóti? ,,Ég held að Gummi setji bara sína eigin pressu sjálfur. Hann veit það sjálfur að það er pressa að utan. Ég held að við verðum að komast upp úr riðlinum til að fólk sé sátt, til að fá fjóra leiki í viðbót á móti þjóðum eins og Frökkum, Dönum, svona stórum liðum sem við myndum fá í milliriðli. Þá sjáum við virkilega hvar við stöndum og getum tekið stöðuna. En á meðan við erum í mótinu eigum við að gefa þeim öllum frið, sjálfstraust og að þeir finni líka að við erum á bak við þá."

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands

Ólafur verður álitsgjafi í EM-stofu RÚV á meðan að mótinu stendur og verður þar með fyrrum liðsfélaga sínum Loga Geirssyni, sem og Kristjönu Arnarsdóttur, íþróttafréttamanni RÚV. ,,Það er bara frábært ég held að við verðum góðir saman þarna með Kristjönu, við ætlum að gera þetta mjög vel, vera bæði skýrir, peppandi og gefa þá vonandi upp einhverjar auka upplýsingar."