Ásgeir Jónsson, handboltaþjálfari, segir sögu af náungakærleik Ólafs Indriða Stefánssonar, fyrrverandi landsliðsmanns í handbolta, á twitter-síðu sinni í dag.

Ólafur, sem þá var leikmaður Magdeburg, og á hátindi ferils síns var með liðsfélögum sínum hjá þýska liðinu að skemmta sér á Mallorca á Spáni. Ásgeir segir að Ólafur hafi bjargað vinkonu sinni um árið sem hafði verið byrlað ólyfjan á skemmtistað á Mallorca.

„Ég var staddur ásamt fríðum hópi í útskriftarferð á Mallorca 2002. Það var þrammandi partí í tvær vikur og ungt fólk aldrei upplifað annað eins frelsi.

Þarna var Óli Stef þegar besti handboltamaður heims. Hann hafði farið á kostum með Magdeburg, sem vann Meistaradeildina þetta ár þar sem hann var yfirburðarmaður og markahæstur í úrslitum. Líka markahæstur og í úrvalsliði Evrópumótsins sama ár," segir Ásgeir í færslu sinni.

„Óli var þarna að skipta yfir frá Magdeburg til Ciudad Real þar sem hann átti eftir að skrifa söguna og vinna 16 stóra titla. Þ.a.m. Meistaradeildina þrisvar á 4 árum. Þá eins og nú er hefð að þýsk lið fari í vikuferð í sólina þegar tímabilinu lýkur og þarna var Óli mættur með Kretzschmar og liðsfélögum til að slettu úr klaufunum," heldur Ásgeir áfram.

„Við sátum á skemmtistað hópurinn og mikið partí í gangi þegar það er gripið um axlirnar á mér og vini mínum. „Nei Íslendingar“. Það var Óli. Á þessum tímapunkti var þetta svipað fyrir tvítugan handboltakappa að hitta Messi. Sem sagt fagnaðarfundir, amk fyrir annan okkar.

Óli og nokkrir liðsfélagar skemmtu sér með okkur fram eftir kvöldi. Algjört Mallorca 2002 dæmi. Þar til mjög alvarlegt atvik átti sér stað. Æskuvinkonu minni var byrlað ólyfjan af einhverju skítseiði og ástandið eftir því. Hringt á sjúkrabíl og ég fór með henni," segir hann enn fremur.

Ólafur Indriði Stefánsson í leik með íslenska landsliðinu.
Fréttablaðið/Getty

„Óli áttaði sig á því að við yrðum í miklum vanda þar sem hvorugt okkar talaði spænsku. Óli hafði lært spænsku sjálfur í nokkra mánuði á undan, eins og maður gerir bara? og var farinn að tala fínustu spænsku. Hann bauðst til að koma með okkur. Og Óli hafði rétt fyrir sér.

Ekki nokkur maður talaði ensku á spítalanum og við hefðum verið í algjöru basli án hans. Óli tók öll samtölin, hjálpaði með alla pappíra og borgaði þann kostnað sem féll til," segir Ásgeir um spítalaferðina.

„Á meðan verið var að huga að vinkonu minni sátum við biðstofunni og spjölluðum um heima og geima. Á svipuðum nótum og nýlegu podcasti. Óli talaði um mikilvægi þess að upplifa sjálfur, fara sínar leiðir, trú og dreyma. Flest sem hafði og hefur mótað hans ferðalag og gerir enn.

Eftir um 3 tíma var vinkona mín komin á fætur. Var ekki trúað því það fannst kókaín í blóðinu. Sjaldan prófað sérstaklega fyrir lyfjum sem eru notuð í þessum tilgangi. Hentu kókaíni í blönduna og þolanda er ekki trúað. Hversu oft ætli byrlun hafi verið afskrifuð með þessum hætti? En allir komust heilir heim og sem betur fer fór þetta allt vel," segir þjálfarinn um samskipti sín við Ólaf.

„Eins og ég nefndi í upphafi var Óli sennilega frægasti handboltamaður heims þarna. Flestir hefðu bara horft á sjúkrabílinn keyra í burtu og haldið kvöldi sínu áfram. Fyrir mér kristallar þetta persónuna sem Óli er. Takk Óli," segir Ásgeir.