Hermann Hreiðarsson, aðstoðarmaður Davíðs Snorra Jónssonar hjá U-21 árs landsliði Íslands í fótbolta karla var ekki á skýrslu þegar liðið lagði Liechtenstein að velli í undankeppni EM 2023.

Ólafur Helgi Kristjánsson, sem verið hefur án þjálfarastarfs síðan honum var sagt upp hjá danska félaginu Esbjerg í Danmörku síðastliðið vor var hins vegar á leikskýrslu í leiknum.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir í samtali við 433.is að Hermann, sem hóf störf hjá KSÍ sem aðstoðarmaður U-21 árs landsliðsins síðasta sumar, hafi ekki átt heimangengt í þessi verkefni.

Hermann var ráðinn þjálfari karlaliðs ÍBV í haust og Klara segir enn fremur í samtali við 433.is að óvíst sé hvort Hermann haldi áfram störfum hjá KSÍ í framhaldinu.

„Það var mikið að gera hjá Hermanni og hann baðst undan þessari ferð. Við eigum eftir að fara betur yfir hlutina með honum og framhaldið. Óli var mjög spenntur fyrir þessu og stökk til," sagði Klara við 433.is.

Íslenska liðið mætir Grikklandi ytra á morgun en Ísland hefur sjö stig eftir fjóra leiki í undankeppninni.