Ólafur Jóhannesson tók við stjórn Vals á nýjan leik á dögunum eftir að Heimir Guðjónsson var látinn fara. Hann var í viðtali við Stöð 2 Sport í kvöld, eftir 3-3 jafntefli Valsara við KR.

„Þetta var bara hörku Reykjavíkurslagur á milli tveggja góðra liða. En ef eitthvað er vorum við heppnari en þeir,“ segir Ólafur, en Valur jafnaði þrisvar í þessum fjöruga leik.

Valur fékk á sig tvö mörk á fyrstu tíu mínútum seinni hálfleiks í dag og skoruðu eitt sjálfir á þeim kafla. „Við töluðum um það í hálfleik að vera vakandi þegar seinni hálfleikur byrjaði en svona er þetta í fótbolta,“ segir Ólafur.

Hann var spurður út í hvort það væri í forgangi að laga varnarleikinn. „Við þurfum að verja markið okkar betur. Það er ekki hægt að skora þrjú og vinna ekki.“

Ólafur var að lokum spurður út í markmið það sem eftir lifir sumars hjá Val. „Við þurufm bara að hugsa um næsta leik og lengra getum við ekki horft,“ segir Ólafur Jóhannesson.