Handknattleiksdeild ÍBV lýsti yfir vantrausti á aðalstjórn ÍBV eftir ákvörðun aðalstjórnar að breyta úthlutun fjármagns frá aðalstjórn. Handknattleiksdeild ÍBV telur að stjórnin hafi þverbrotið reglur félagsins með því að bera þessar breytingar ekki undir fulltrúaráð félagsins.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá handknattleiksdeild ÍBV í dag og ákváðu meðlimir handknattleiksráðs félagsins að segja sig frá störfum. Undir yfirlýsinguna skrifar Grétar Þór Eyþórsson formaður handknattleiksdeildar ÍBV.

Þór Vilhjálmsson formaður aðalstjórnar ÍBV gat ekki veitt Fréttablaðinu viðtal þegar eftir því var óskað en kvaðst geta rætt málin síðar í dag.

Í yfirlýsingunni kemur fram að þann 15. mars síðastliðinn hafi aðalstjórn félagsins ákveðið að breyta ríkjandi fyrirkomulagi í samningagerð og úthlutun á fé frá aðalstjórn. Það sem áður var helmingaskipt átti nú að vera 65 prósent til knattspyrnudeildar og rúmur þriðjungur til handknattleiksdeildar.

Greinagerðin sem fylgdi ákvörðuninni frá framkvæmdastjóra félagsins hafi verið hrakin að öllu leyti enda hafi fullyrðingar og fjárhæðir sem þar komu fram ekki staðist neina skoðun.

Með því hafi aðalstjórn ÍBV brotið reglur félagsins enda þurfi allar meiriháttar breytingar á starfsemi félagsins að fara fyrir fulltrúaráð áður en hún er samþykkt. Aðalstjórn hafi hins vegar hafnað öllum ábendingum.

Grétar Þór (t.v) skrifar undir yfirlýsinguna.
ÍBV

Yfirlýsing handknattleiksdeildar ÍBV:
Handknattleiksdeild ÍBV ÍÞróttafélags lýsir yfir vantrausti á aðalstjórn ÍBV Íþróttafélags.

Aðalstjórn ÍBV Íþróttafélags tók ákvörðun á fundi sínum þann 15. mars sl. að breyta ríkjandi fyrirkomulagi frá stofnun félagsins um jafnræði milli deilda félagsins, handknatteiksdeildar og knattspyrnudeildar við gerð heildarsamninga og úthlutun á fé frá aðalstjórn og þá þannig að knattspyrnudeild skyldi fá 65% og handknattleiksdeild 35%.

Þegar að aðalstjórn tók framangreinda ákvörðun þá voru í gildi reglur um jafna skiptingu milli deilda og liggur fyrir að aðalstjórn þekkti ekki til þeirra reglna þegar að ákvörðunin var tekin.

Til grundvallar ákvörðunar aðalstjórnar 15. mars sl. lá greinargerð frá framkvæmdastjóra. Greinargerðin hefur verið hrakin að öllu leyti og stóðust þær fullyrðingar og fjárhæðir sem þar komu fram enga skoðun, eins og aðalstjórn hefur verið kynnt með ítarlegum hætti af handknattleiksráði.

Þá telur handknattleiksráð ÍBV að aðalstjórn hafi þverbrotið reglur félagsins með því að setja þessa ákvörðun ekki fyrir fulltrúaráð félagsins áður en hún var tekin. Telur handknattleiksdeildin lög og reglur félagsins skýrar hvað þetta varðar en allar meiriháttar breytingar á starfsemi félagsins skulu fara fyrir fulltrúaráð áður en slík ákvörðun er tekin. Handknattleiksráð hefur ítrekað reynt að fá aðalstjórn til að breyta þessari ákvörðun sinni m.a. gert þá tillögu að lögmæti ákvörðunarinnar verði skoðað af þremur lögfræðingum en allri viðleitni handknattleiksdeildar hefur verið hafnað af aðalstjórn.

Við í handknattleiksráði ÍBV ÍÞróttafélags höfum og viljum leggja á okkur ómælda vinnu fyrir félagið. Það gerum við á grundvelli jafnræðis, allt frá stofnun ÍBV ÍÞróttafélags. Nú hefur aðalstjórn breytt grundvelli félagsins. Við í handknattleiksráði sættum okkur ekki við að mæta til vinnu fyrir félagið á öðrum forsendum en jafnræði og segjum því af okkur störfum í handknattleiksráði ÍBV ÍÞróttafélags.