Ole Gunnar Solskjaer hrósaði Paul Pogba sem sterkum einstakling og telur að mótlætið í garð Pogba muni styrkja hann.

Pogba brenndi af vítaspyrnu í síðasta leik Manchester United sem varð til þess að notendur Twitter voru með kynþáttaníð í garð Pogba. Það gerðist stuttu eftir að Tammy Abraham, leikmaður Chelsea og Yakou Meite, leikmaður Reading, lentu í því sama á samfélagsmiðlum.

„Paul er sterkur karakter og þetta mun bara efla hann sem leikmann en ég trúi því varla að það þurfi að ræða þetta árið 2019. Samfélagsmiðlar eru staðir þar sem fólk getur falið sig á bak við falskar upplýsingar, ég veit af mörgum Ole Gunnar Solskjaer á vefnum sem eru ekki mínir aðgangar,“ sagði Solskjaer og hélt áfram:

„Stjórnvöld þurfa að grípa inn í þegar þessir aðgangar eru að útdeila hatursfullum skilaboðum líkt og þessum. Yfirleitt finnur maður til með þessu fólki því það á greinilega sjálft við vandamál að stríða.“

Phil Neville, þjálfari enska kvennalandsliðsins, lagði til að leikmenn myndu hætta á samfélagsmiðlum í hálft ár en Solskjaer ætlar ekki að grípa til þess að banna mönnum að nota samfélagsmiðla.

„Við þurfum að passa upp á einstaklingana, þegar þeim berast líflátshótanir eða hatursfull ummæli, þá er það alvarlegt. Við munum ekki banna þeim að nota samfélagsmiðla sem eru góðir á sinn hátt en við þurfum að stöðva þessa einstaklinga misnota samfélagsmiðla.“