Íslenski atvinnu- og landsliðsmaðurinn í handbolta Ólafur Guðmundsson reyndist hetja svissneska liðsins GC Amicitia Zürich sem komst í gær áfram í forkeppni Evrópudeildarinnar í handbolta. Ólafur skoraði markið sem tryggði Zurich áfram með bylmingsskoti úr aukakasti, sannkallað flautumark.

Ólafur gekk til liðs við GC Amicitia Zürich í júnímánuði frá franska liðinu Montpellier en verkefni Zurich gegn Gornik Zabrze frá Póllandi í Evrópudeildinni í gær var risavaxið.

Um var að ræða seinni leik liðanna í forkeppninni og Gornik Zabrze hafði unnið fyrri leik liðanna nokkuð örugglega með átta marka mun, 19:27. Það var því við ramman reip að draga fyrir leikmenn GC Amicitia Zürich í gær en í hálfleik leiddi liðið með einu marki 14:13.

Munurinn milli liðanna var þó meiri eftir því sem leið á síðari hálfleikinn og á lokasekúndum leiksins var munurinn 31:23 GC Amicitia Zürich í vil og leikurinn virtist stefna í vítakeppni.

Leiktíminn rann út en GC Amicitia Zürich fékk aukakast rétt fyrir utan teig Gornik Zabrze og Ólafur Guðmundsson tók það. Hann gerði sér lítið fyrir og hamraði boltanum í netið og tryggði GC Amicitia Zürich því sæti í næstu umferð forkeppninnar. Mark hans má sjá hér fyrir neðan.