Mikael Nikulásson, þjálfari karlaliðs Njarðvíkur í 2. deildinni, sagði í hlaðvarpinu Doctor football að Anna Björk Kristjánsdóttir, leikmaður Selfoss, ætti ekki skilið að fá þau laun sem hún fær hjá Selfossi. „Þetta kostaði meiri pening en ég vil meina að leikmaður í kvennabolta eigi að fá,“ sagði Mikael. Anna sneri aftur til Íslands eftir farsælan feril í atvinnumennsku og samdi við Selfyssinga.

Setningin olli gríðarlegri reiði og tjáðu landsliðskonur í fótbolta sig um orðin á samfélagsmiðlum sem og margir aðrir fótboltaáhugamenn. Ingibjörg Sigurðardóttir, landsliðskona og varnarmaður hjá Vålerenga í Noregi, sagði; „Þetta er svo ótrúlega þreytt dæmi. Landsliðskona í fótbolta að koma heim eftir mörg ár í atvinnumennsku en á samt ekki skilið að fá laun eins og leikmaður í Pepsi-deild karla.“

Sif Atladóttir segir að umfjöllunin sé gerð í nafni Avis og vonar að þetta lagist. Ef ekki geti Avis farið annað. Það séu til hlaðvörp um kvennaboltann eins og Heimavöllurinn hjá fótbolta.net.

Helgi Seljan fjölmiðlamaður dró hvergi undan og sagði á Twitter; „Gæi sem telur sig Mourinho en er í besta falli skeiðklukkueigandi með vald til að ráða hver klæðist hvaða jogginggalla á sparkvelli í Njarðvík, talar með rassgatinu.“

Þetta fannst Ólafi Kristjánssyni, þjálfara FH, sniðugt og henti í gott læk. Ólafur er langt frá því að vera besti vinur þeirra sem sjá um Doctor Football og hefur fengið sinn skerf af gagnrýni.

Doktor Football er í umsjón Hjörvars Hafliðasonar, og snýr hann aftur á skjáinn í sumar þegar hann sest í sérfræðingasætið í Pepsi-mörkunum. Hlaðvarp hans er eitt það vinsælasta á Íslandi og hefur hann verið duglegur að sanka að sér styrktaraðilum. Umræðan um kvennaboltann var í boði Avis en ekki náðist í bílaleiguna í gær til að spyrja hvort hún ætlaði að bakka út úr samstarfinu eftir einn þátt eða halda áfram.

Helgi Seljan, fjölmiðlamaður.