Eggert Gunn­þór Jóns­son sneri í gær aftur í leik­manna­hóp FH í 2-0 sigri liðsins á ÍBV í Bestu deildinni. Héraðs­sak­sóknari felldi niður kæru á hendur Eggerti og Aroni Einari Gunnars­syni, öðrum knatt­spyrnu­manni fyrir helgi og Ólafur Jóhannes­son, þjálfari FH var spurður út í Eggert eftir leik gær­dagsins í við­tali við Vísi.

Í frétt sem birtist hjá vef­miðlinum eftir við­tal við Ólaf segir að hann hafi brugðist ó­kvæða við spurningum blaða­manns um mál Eggerts og að hann hafi látið ó­á­nægju sína í ljós í lok við­talsins. 

FH-ingar sendu frá sér yfir­lýsingu fyrir leik gær­dagsins þar sem greint var frá því að Eggert hafi snúið aftur til starfa hjá fé­laginu og sé orðinn hluti af leik­manna­hópi fé­lagsins á ný. 

Ólafur sagði í gær að Eggert hafi æft með liðinu á meðan að leyfinu stóð og að það hafi aldrei verið vafi í hans huga um að taka hann aftur inn. „Hann er búinn að æfa með okkur allan tímann og það var aldrei vafi í mínum huga,“ sagði Ólafur í sam­tali við blaða­mann Vísis í gær.

Aðspurður um áhrif málsins á leikmannahóp FH hafi Ólafur svarað með sjö sekúndna þögn áður en hann tjáði sig. „Mér fannst við bara spila vel í dag og er ánægður með það.“